Hoppa yfir valmynd
16. júlí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samningaviðræðum ríkisins og skilanefnda gömlu bankanna nánast lokið

Fréttatilkynning nr. 49/2009

Undanfarnar vikur og mánuði hafa staðið yfir samningaviðræður milli fulltrúa stjórnvalda annars vegar, og skilanefnda gömlu bankanna f.h. kröfuhafa hins vegar, um endanleg fjárhagsskil milli gömlu og nýju bankanna. Í febrúar sl. ákvað ríkisstjórnin að fulltrúar þriggja ráðuneyta kæmu að viðræðunum fyrir hönd ríkisstjórnar, að fjármálaráðuneyti myndi leiða þær og að ráðnir yrðu erlendir ráðgjafar (breska ráðgjafafyrirtækið Hawkpoint) til að annast samningagerð fyrir hönd ríkisins. Þá réði fjármálaráðuneytið reyndan bankamann, Þorstein Þorsteinsson, til að hafa yfirumsjón með samningaviðræðunum.

Á grundvelli neyðarlaganna sem sett voru í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfisins í október voru innlendar eignir og skuldir gömlu bankanna fluttar yfir í nýju bankana og skuldbundu stjórnvöld sig til að tryggja að mismunur yfirfærðra eigna og skulda yrði bættur kröfuhöfum gömlu bankanna og að gætt yrði gagnsæis og sanngirni í því efni. Fjármálaeftirlitið (FME) lét meta yfirfærðar eignir og réði til þess endurskoðendafyrirtækið Deloitte og var matið vottað af ráðgjafarfyrirtækinu Oliver Wyman. Með því uppfylltu stjórnvöld þau fyrirheit sem m.a. voru veitt í viljayfirlýsingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í nóvember sl.

Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var veittur frestur til 17. þ.m. til að ljúka samningum, þ.e. til morguns, en fresturinn hafði áður verið framlengdur.  

Undirbúningur samninga hófst í mars sl., en eiginlegar viðræður hófust síðar. Þær hafa nú staðið sleitulaust síðustu vikur og daga og verið bæði viðkvæmar og flóknar. Stjórnvöld hafa kappkostað að tryggja hagsmuni Íslands í þessum viðræðum, um leið og fullrar sanngirni væri gætt gagnvart viðsemjendum, en þar er um ólíka aðila að ræða með mismunandi hagsmuni.

Samningar eru nú á lokastigi og er stefnt að því að þeim verði í meginatriðum lokið innan tilsettra tímamarka, en unnið verður að endanlegum frágangi og miðlun upplýsinga til kröfuhafa allra næstu daga. Ráðgert er að ríkisstjórnin gefi út yfirlýsingu nk. mánudag þar sem grein verður gerð fyrir niðurstöðum samningaviðræðna og þá um leið hvernig staðið verður að endurfjármögnun bankanna.

 

Fjármálaráðuneytinu, 16. júlí 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta