Orkusjóður styrkir þrettán verkefni
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra hefur staðfest tillögur Orkuráðs um styrki úr Orkusjóði til rannsókar- og kynningarverkefna fyrir árið 2009.
Styrkirnir voru veittir við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu 16. júlí og falla í hlut verkefna verkefna sem beinast að nýtingu innlendra orkugjafa og hagkvæmri orkunotkun.
Veittir voru 13 styrkir að upphæð 25,6 milljónir króna. Alls bárust 57 umsóknir um samtals 158,3 m.kr. og voru í þeim hópi ýmis áhugaverð og mikilsverð verkefni sem ekki var unnt að styrkja að þessu sinni.
Um hvern styrk er gerður samningur þar sem kveðið er á um verk- og kostnaðaráætlun, áfanga við greiðslu styrkfjárhæðarinnar, framvinduskýrslur og skilagögn. Miðað er við að styrkir úr Orkusjóði geti numið allt að helmingi kostnaðar við verkefnið sem styrkinn hlýtur eða þann hluta þess sem styrktur er.
Orkuráð starfar í tengslum við Orkustofnun og er meginhlutverk þess að sjá um rekstur Orkusjóðs, sem úr eru veitt áhættulán fyrir jarðhitaverkefnum og styrkir til rannsókna og fræðsluverkefna um endurnýjanlega orku, orkunýtingu og -sparnað. Iðnaðarráðherra skipar menn í ráðið og starfa þar nú Mörður Árnason, formaður, Bryndís Brandsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Guðmundsson og Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir.
Ávarp iðnaðarráðherra við afhendingu styrkja Orkusjóðs:
Andspænis þeim verkefnum sem þjóðin stendur nú skiptir mjög miklu máli að leita nýrra leiða til verðmætasköpunar, gjaldeyrissparnaðar og eflingar atvinnulífsins. Þar leikur orkan lykilhlutverk. Þess vegna er það mikið ánægjuefni að afhenda styrki Orkusjóðs til spennandi nýsköpunarverkefna.
Orkusjóði er ætlað að styðja verkefni á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þ.m.t. til fræðslu og upplýsingastarfsemi og verkefni sem stuðla að nýtingu á innlendri orku í stað jarðefnaeldsneytis og styrkja alþjóðasamvinnu um slík verkefni.
Líkt og undanfarin ár var auglýst sérstaklega eftir verkefnum sem snertu hagkvæma orkunýtingu og orkusparnað, innlenda orkugjafa, vistvænt eldsneyti og sparnað jarðefnaeldsneytis.
Í ljósi þeirrar yfirlýstu stefnu ríkisstjórnarinnar að draga enn úr hlutfalli innflutts jarðefnaeldsneytis í orkunotkun þjóðarinnar staðfesti ég tillögur Orkuráðs um styrkþega með mikilli ánægju.
Af verkefnunum þrettán sem nú hljóta samning um styrki snúast fjögur um vistvænni bifreiðar og fjögur til viðbótar eru um framleiðslu á innlendum orkugjöfum fyrir samgöngutæki og aðrar vélar.
Þá eru ótalin önnur metnaðarfull verkefni sem öll miða að umhverfisvænni orkuframleiðslu, orkusparnaði eða bættri orkunýtingu.
Öll sýna þessi verkefni okkur að samfélag okkar býr bæði yfir því hugviti og þeim krafti sem við þurfum til að vinna þjóðina út úr yfirstandandi efnahagserfiðleikum. Okkar verðmætasta stóriðja er virkjun á þessum þáttum.
Þess vegna hef ég lagt á það áherslu að verja stoð- og styrkjakerfi nýsköpunar og atvinnulífs. Við þurfum verðmætasköpun og atvinnu en hvorugt er mögulegt ef við borðum útsæðið í harðindunum.
Ég vona að ég eigi eftir að heyra meira af þeim verkefnum sem hér er verið að ýta úr hlaði og þá sem fyrirtækjum í vexti.
Að svo mæltu vil ég óska ykkur frumkvöðlunum öllum til hamingju!
Styrkþegar
Rannsóknar- og fræðslustyrkir úr Orksjóði 2009
Nánar um verkefnin 13 sem fá styrk úr Orkusjóði að þessu sinni:
1. Samfélag til fyrirmyndar – Orkustefna fyrir Vestmannaeyjar – 2,8 m.kr.
Rannsóknahópur úr Háskóla Íslands undir forystu Ólafs Péturs Pálssonar í samvinnu við Eyjamenn. – Verkefnið „Samfélag til fyrirmyndar – Sjálfbærari og skynsamlegri orkunýting í bæjarfélögum“ felst í að móta orkustefnu fyrir Vestmannaeyjabæ og vinna upp aðgerðaáætlun þar sem markmiðið er að notast sem mest við sjálfbæra orkugjafa og nýta orku betur í öllu sveitarfélaginu. Árangur sem næst í Eyjum verður mældur og skráður þannig að önnur sveitarfélög geti nýtt sér álíka vinnubrögð til að ná fram orkunýtni og hagræðingu í sínum rekstri. Verkefnið snýst ekki síst um notkun staðbundinna orkugjafa, svo sem vindorku, sjávarvarma, sjávarstrauma, og tengist öðrum orkuverkefnum í Eyjum, svo sem við varmadælur og rafbílavæðingu.
2. RAF RENNI REIÐ (RRR) – 2,5 m.kr
Stofnun Sæmundar fróða o.fl. (Guðrún Pétursdóttir). – Rafvæðing samgangna er viðfangsefni þverfræðilegs hóps fremstu fræðimanna sem ætlar sér að auðvelda ákvarðanir á þessu sviði með því að koma tiltækum upplýsingum og rannsóknarniðurstöðum um tæknilega, hagræna, umhverfislega og félagslega þætti fyrir í kvikum kerfislíkönum. Á þennan hátt má sjá fyrir líkleg áhrif einstakra ákvarðana á aðra þætti og samfélagið í heild, og auðvelt er að fylgja eftir þróun og breyttum forsendum.
3. Ljósbúnaður fyrir ljós-lífviðtaka – 2,5 m.kr.
Vistvæn Orka ehf. (Ásbjörn E. Torfason). – Verkefnið felst í að hanna og smíða frumgerð ljósbúnaðar fyrir ljós-lífviðtaka (photobioreactor) til að framleiða smáþörunga en lífmassann er síðan hægt að nýta sem eldsneyti eða vinna úr honum verðmætar afurðir. Ljósræktunarkerfið gerir kleift að binda koldíoxíð og nýta afgangsvarma frá orkuverum og væri því í senn stuðlað að hagkvæmri orkunýtingu og minnkuð losun gróðurhúsalofts. Umsækjandinn fékk styrk úr Orkusjóði í fyrra til þróunarvinnu til þessarar framleiðslu sem nú nýtist við hönnun og smíði búnaðarins.
4. Framleiðsla repjuolíu til eldsneytis – 2,3 m.kr.
Eyrarbúið ehf. (Ólafur Eggertsson) – Ræktun repju hófst á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum í fyrra og er vonast eftir góðri uppskeru í sumar. Nú er unnið að hönnun búnaðar til að vinna olíuna úr fræunum og er markmiðið að framleiða lífrænt eldsneyti sem fyrst í stað yrði notað á vinnuvélar á búinu. Verkefnið gæti leitt til framleiðslu innlendrar lífdísilolíu sem blanda mætti í hefðbundinn dísil og draga þannig verulega úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti. Aðrir aðstandendur verksins eru Siglingastofnun og Landbúnaðarháskólinn.
5. Lífdísilframleiðsla í Skagafirði – 2,3 m.kr.
Umhverfið þitt ses. (Pétur Friðjónsson) – Verkefninu er ætlað að ganga úr skugga um möguleika á um talsverðri lífdísilframleiðslu í Skagafirði úr hráefni sem til fellur frá kjöt- og fiskvinnslu á svæðinu. Greindir verða tæknilegir valkostir og kannað skipulag hráefnisöflunar, en síðan hugað að aðlögun búnaðar og uppsetningu áður en tilraunaframleiðsla hefjist. Verkefninu er ætlað að leiða í ljós hagkvæmni staðbundinnar eldsneytisframleiðslu.
6. Tilraunaframleiðsla á eldsneyti – 2,25 m.kr.
Mannvit hf. (Ásgeir Ívarsson) – Verkefnið felst í að setja upp tækjabúnað til að nota við fjölþættar prófanir á ýmsu innlendu eldsneyti, etanóli, lífdísli og metani, einkum við formeðhöndlun lífmassa sem til þarf, og ennfremur í tilraunarekstri búnaðarins nokkurn tíma. Að lokum er stefnt að uppbyggingu lífmassavers með tugum starsfmanna. Verkefnið tengist tilraunahluta viðamikilla verkefna á vegum eða með þátttöku Mannvitsmanna um vistvænt eldsneyti úr hverskyns lífmassa, lífrænum úrgangi, sellulósa eða olíuríkum plöntum og sérræktuðum örþörungum.
7. Íslensk aðlögun EPC – orkuflokkunarkerfi fyrir húsnæði – 2 m.kr.
Almenna verkfræðistofan hf. (Ragnar Hauksson) – Verkefnið er að laga breskaættaða orkuflokkunarkerfið EPC (e. Energy Performance Certificate) að íslenskum aðstæðum.
EPC-kerfið gefur til kynna orkunýtingu húsa og eru þar gefnar einkunnir frá A til G í sérstöku skírteini. Með kerfinu á að vera unnt að bera saman orkunýtingu í mismunandi húsum, en með fylgir greinargerð með hugmyndir að endurbótum, svo sem bættri einangrun veggja, þaks eða glugga, og áætlun um kostnað, um árlegan orkusparnaður og bætta niðurstöðu úr EPC-greiningu. Takist aðlögun vel má ætla að verkefnið nýttist við mótun orkustefnu í byggingum á landsvísu, sem ekki síst nýttist íbúum á köldum svæðum.
8. Straumhjólið – nýr íslenskur hverfill - 2,0 m.kr.
Valorka ehf. (Valdimar Össurarson) – Straumhjólið er nýr íslenskur hverfill sem gæti hentað til að virkja sjávarföl og hægstreym vatnsföll. Fyrsti áfangi felst í smíði prófunarlíkana, prófanum í keri og mati á afköstum og markaðshorfum hverfilsins. Stjórnandi prófana verður Halldór Pálsson, vélaverkfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, og er samstarf haft við orkuskóla Keilis, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Fjölbrautarskóla Suðurnesja.
9. Breyting á dísilvélum með forðagrein yfir í tvíeldsneytisvélar (metan-dísilvélar) – 1,9 m.kr.
Íslenska gámafélagið ehf. (Birgir Ásgeir Kristjánsson) – Verkefnið snýst um að afla þekkingar sem að lokum geti skapað skilyrði til að breyta dísilvélum þannig að þær geti að stórum hluta nýtt innlent metangas. Með því gæti opnast leið til metanvæðingar bíla sem fyrir eru í landinu. Nú er stefnt að því að kanna hvernig gengið hefur að breyta dísilvélum yfir í metan/dísil-vélar, og efna til samvinnu við framleiðendur, rannsóknarmenn og aðra hagsmunaaðila. Verkefnið er unnið í samstarfi við Keili.
10. Úrbætur við orkuöflun og orkunýtingu á Hveravöllum – 1,7 m.kr.
Hveravallafélagið ehf. (Björn Magnússon) – Verkefnið felst í að kanna uppsetningu þriggja vindmyllna (3×2,5 kW) á Hveravöllum á Kili sem sæju þjónustumiðstöðinni þar fyrir raforku í stað olíuknúinna véla, en jarðvarmi nýtist þar að nokkru til upphitunar. Takist þetta væri tryggð traust orkuöflun á staðnum, dregið úr mengun og brennslu innflutts jarðefnaeldsneytis, og kynni frumkvæði á Hveravöllum að verða fyrirmynd annarra ferðastaða á hálendinu. Ætlunin er hafa um þetta samstarfi við Robert Dell, prófessor í Cooper-háskólanum í New York, og nemendur hans.
11. Greining útfellinga í varmaskiptum - 1,5 m.kr.
Háskóli Íslands (Oddgeir Guðmundsson) – Markmið verkefnisins er að greina útfellingar í varmaskiptum í hefðbundinni notkun. Unnið er að gerð orkujafnvægislíkans og verða mælingar inn- og úthitastigs auk massaflæðis heita og kalda vökvans notaðar til að meta árangurinn. Þær upplýsingar sem verkefnið gefur til að finna hvenær best sé að hreinsa varmaskiptana, en með því ynnist verulegur sparnaður og að auki fæst betri orkunýting í hreinum varmaskiptum. Um er að ræða framhald rannsóknarsamstarfs HÍ og samstarfsaðila við háskólana í Valenciennes og Poitiers, Frakklandi, en það hófst fyrir tilstuðlan Jules Verne-áætlunarinnar fyrir þremur árum.
12. Alþjóðaráðstefna um sjálfbæran akstur (Driving Sustainability) – 1 m.kr.
Framtíðarorka ehf. (Teitur Þorkelsson o.fl.) – Árleg alþjóðleg ráðstefna um orkulausnir framtíðar í samgöngum verður haldin þriðja sinni í Reykjavík í september 2009. Megintemu nú er notkun rafmagns og metans í samgöngum. Ráðstefnuhaldið tengir saman fræðimenn, framleiðendur, markaðsmenn, opinbera aðila og áhugamenn, og hefur að markmiði að gera Ísland að vettvangi umræðu og lausna á sviði vistvænna samgangna. Þetta ráðstefnuhald fékk einnig styrk úr Orkusjóði í fyrra.
13. Varmageymir í bifreiðir til til forhitunar – 0,8 m.kr.
Háskóli Íslands (Halldór Pálsson) – Verkefnið snýst um nýjan búnað til að forhita bílvélar fyrir ræsingu, sem getur dregur úr mengun, sliti og eldsneytiseyðslu, ekki síst í köldu landi þar sem bílar eru oftast notaðir í vegalengdum undir 5–10 km. Í stað hefðbundinnar forhitunar með rafmagni (eða bensín/dísel-hitara) verður hannaður búnaður þar sem heitt kælivatn er geymt í varmageymi og síðan notað til forhitunar. Þetta er frumvinna og lýkur þessum áfanga með því að fyrir liggja niðurstöður rannsókna á áhrifum forhitunar og frumgerð búnaðar í tveimur bílum, bensín- og dísilbíl.