Skóflustunga að fullkominni fóðurverksmiðju
Þann 15. júlí tók Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra fyrstu skóflustungu að nýrri og fullkominni fóðurverksmiðju Líflands á Grundartanga ásamt Bergþóru Þorkelsdóttur framkvæmdastjóra og Jóni Bjarnasyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Ávarp iðnaðarráðherra við skóflustunguna:
Góðar fréttir eru alltaf kærkomnar - ekki síst á tímum samdráttar í efnahagslífinu.
Þess vegna er sérstök ástæða til að fagna því að nú skuli vera að hefjast framkvæmdir við nýja og fullkomna fóðurverksmiðju Líflands hér á Grundartanga.
Ráðherrar í ríkisstjórn sem fékk það verkefni í vöggugjöf að fást við afleiðingar af hruni fjármálakerfisins og dýpstu efnahagslægðar á heimsvísu frá heimskreppunni miklu snemma á síðustu öld, eru að mestu uppteknir við önnur verkefni en að klippa á borða eða taka skóflutungur.
En við finnum fyrir því í iðnaðarráðuneytinu að sóknarhugurinn er fjarri því úr atvinnulífinu og að enn er áhugi meðal bæði innlendra og erlendra fjárfesta á verkefnum hér á landi. Þá spretta stöðugt upp hugmyndir að nýjum þróunar- og sprotaverkefnum.
Á góðum stundum vísum við stundum til iðnaðarráðuneytisins sem ráðuneytis tækifæranna við svona aðstæður enda okkar hlutverk að sjá um stoðkerfi atvinnulífsins.
Ný verksmiðja Líflands er gott dæmi um þá endurnýjun sem nú er að verða. Hér verður beitt nýjustu tækni við að uppfylla ströngustu heilbrigðiskröfur og bæta gæði vörunnar.
Ég vil að lokum óska Líflandi, íslenskum iðnaði og íslenskum landbúnaði til hamingju með þessa væntanlegu verksmiðju.
Bergþóra Þorkelsdóttir framkvæmdastjóri, Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra
og Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra