Hoppa yfir valmynd
20. júlí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samkomulag stjórnvalda við skilanefndir bankanna þriggja; Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands

Fréttatilkynning nr. 50/2009

Aðalatriði

  • Stór áfangi í uppbyggingu íslensks efnahagslífs.
  • Mikilvægt skref í endurreisn bankakerfisins.
  • Fjármögnun bankanna tryggð.
  • Mun minna skattfé fer til endurfjármögnunar en áður var áætlað.
  • Uppgjör vegna uppskiptingar bankanna fer fram með ráðstöfun eignarhluta í Nýja Kaupþingi og Íslandsbanka.
  • Lagður grundvöllur að sátt við kröfuhafa.
  • Staða viðskiptamanna bankanna verður óbreytt.

Forsaga

Í kjölfar falls íslensku bankanna í október sl. stofnsetti ríkið þrjá nýja banka til að taka yfir meginhluta innlendrar bankastarfsemi. Innstæður í útibúum á Íslandi voru fluttar yfir í nýju bankana ásamt útlánum íslensku útibúanna og öðru sem tengdist starfseminni hér á landi. Stjórnvöld skuldbundu sig til að tryggja að mismunur yfirfærðra eigna og skulda yrði bættur kröfuhöfum gömlu bankanna og að gætt yrði gagnsæis og sanngirni í því efni. Um leið var ljóst að fjármagna þurfti rekstur nýju bankanna af hálfu ríkisins sem eiganda þeirra.

Á grundvelli neyðarlaganna sem samþykkt voru í október fól Fjármálaeftirlitið (FME) erlendum ráðgjafarfyrirtækjum að meta yfirfærðar eignir. Með því uppfylltu stjórnvöld þau fyrirheit sem m.a. voru veitt í viljayfirlýsingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í nóvember. 

Undirbúningur og samningsgerð vegna endurgjalds til gömlu bankanna fyrir eignir sem fluttar voru hefur staðið yfir undanfarnar vikur og mánuði.

Viðræður við kröfuhafa

FME skipaði gömlu bönkunum skilanefndir í október og skyldu þær gæta hagsmuna gömlu bankanna og kröfuhafa þeirra. Samkvæmt því hafa skilanefndirnar átt í viðræðum við íslenska ríkið um uppgjör vegna skiptingar bankanna. Ríkisstjórnin ákvað að fela fjármálaráðuneytinu að leiða samningaviðræður fyrir sína hönd. Ráðuneytið réði reyndan bankamann, Þorstein Þorsteinsson, til að leiða samningaviðræðurnar, en einnig voru ráðnir erlendir ráðgjafar (breska ráðgjafafyrirtækið Hawkpoint) til aðstoðar við samningagerðina.

Viðræðurnar snérust einkum um tvennt:

  1. sanngjarnt mat á eignum, og
  2. með hvaða hætti uppgjör færi fram.

Undirbúningur samninga hófst í mars sl., en eiginlegar viðræður hófust síðar. Þær hafa nú staðið sleitulaust síðustu vikur og daga og verið bæði viðkvæmar og flóknar. Stjórnvöld hafa kappkostað að tryggja hagsmuni Íslands, um leið og fullrar sanngirni væri gætt gagnvart viðsemjendum, en þar er um ólíka aðila að ræða og hagsmunir þeirra mismunandi.

Samningsmarkmið ríkisins

Ríkið setti eftirfarandi samningsmarkmið í upphafi: 

  • Lágmarka kostnað ríkisins og þar með skattgreiðenda af falli bankanna og uppbyggingu þeirra.
  • Tryggja traust bankakerfi að samningum loknum.
  • Hraða uppgjöri við gömlu bankanna eins og kostur væri.
  • Mæta væntingum kröfuhafa eins og mögulegt væri.
  • Viðhalda og byggja upp traust á Íslandi með því að ná niðurstöðum sem flestir gætu fallist á.
  • Stuðla að aðgangi Íslendinga að erlendum lánsfjármörkuðum. 

Niðurstaða viðræðna

Síðastliðinn föstudag náðu samningsaðilar mikilvægum niðurstöðum í viðræðum sínum og hafa þeir undirritað samkomulag þar um. Niðurstöðurnar fela í sér og leiða til eftirfarandi:

  • Að endurfjármögnun bankanna fari fram eigi síðar en 14. ágúst nk.
  • Að skilanefndir Glitnis og Kaupþings, að undangengnu samráði við kröfuhafa, eigi þess kost að eignast meginhluta hlutafjár í Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi.
  • Að samkomulagi er náð við kröfuhafa gamla Landsbankans um hvernig staðið verður að því að ljúka uppgjöri milli hins gamla og nýja Landsbanka, en það samkomulag er í eðli sínu all frábrugðið hinum tveimur, þar sem samsetning kröfuhafahópsins er önnur en í hinum bönkunum. 

Búist er við að framlag ríkisins til endurfjármögnunar bankanna nemi um 271 milljarði íslenskra króna. Fallist kröfuhafar Glitnis og Kaupþings á það samkomulag sem undirritað hefur verið við skilanefndir bankanna tveggja lækkar fjárframlag ríkisins um 73 milljarða og verður samanlagt um 198 milljarðar króna. Áður hafði verið gert ráð fyrir að ríkissjóður þyrfti að leggja bönkunum þremur til allt að 385 milljörðum króna. 

Hér er gerð grein fyrir samningum um hvern banka um sig:

Landsbanki Íslands/Nýi Landsbanki (NBI)

Verulegur árangur hefur náðst í samningaviðræðum við skilanefnd Landsbankans. Samsetning kröfuhafahóps hans er töluvert frábrugðin því sem er í hinum bönkunum vegna vægis opinberra aðila. Því eru forsendur aðrar í þeim viðræðum.

Samið hefur verið um hvernig framhaldi viðræðna verður háttað; að greiðsla fyrir þær eignir sem færðar voru á milli bankanna verði innt af hendi eigi síðar en 31. júlí, og að endurfjármögnun bankans fari fram 14. ágúst. 

Líkur eru á því að ríkissjóður leggi Nýja Landsbankanum til 140 milljarða króna. Bankinn verður áfram í eigu ríkisins.

Glitnir/Íslandsbanki

Glitni gefst kostur á að eignast alla hluti í Íslandsbanka. Áður mun þó ríkið þann 14. ágúst nk. leggja til 60 milljarða króna hlutafé sem Glitnir mun síðan kaupa af ríkinu ef félagið ákveður að eignast hlutina í Íslandsbanka. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja bankanum til 25 milljarða króna í formi víkjandi láns eða með öðrum sambærilegum hætti. 

Kaupþing/Nýja Kaupþing

Í Nýja Kaupþingi mun (gamla) Kaupþingi gefast kostur á að eignast tæplega 90% hlut í bankanum á móti ríkissjóði. Áður mun þó ríkið þann 14. ágúst nk. leggja 70 milljarða króna hlutafé sem gamla Kaupþing mun síðan kaupa af ríkinu ef félagið ákveður að eignast hlutina í Nýja Kaupþingi. Nýti gamla Kaupþing sér réttinn til að eignast hlutafé ríkisins hefur ríkisstjórnin samþykkt að leggja bankanum til um 33 milljarða kr. til að mæta eiginfjárþörf hans. Af þeirri fjárhæð verða 25 milljarðar í formi víkjandi láns og 8 milljarðar í almennu hlutafé. 

Fyrirkomulag eignarhalds 

Skilanefndir Glitnis og Kaupþings fara með hluti þeirra í Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi. Kröfuhafar verða ekki beinir eigendur að hinum nýju bönkum. Skilanefndir munu ráðstafa þessum eignum eins og hentugast þykir og í samræmi við þær skorður sem FME mun setja um meðferð hlutanna. Líklegt er að stofnuð verði sérstök eigarhaldsfélög um þessar eignir gömlu bankanna.

Ríkið mun eiga fulltrúa í stjórn Nýja Kaupþings og Íslandsbanka og njóta réttinda og verndar sem eigandi minnihluta hlutafjár. 

Fyrirvarar

Allir samningar eru gerðir með fyrirvara um lokaákvarðanir skilanefndanna sem verða teknar að loknu samráði við kröfuhafa og er að vænta fyrir septemberlok. Einnig er fyrirvari um samþykki FME sem skera þarf úr um hvort það sem gert er samrýmist kröfum um fjármögnun, styrk bankanna og stöðu eigenda á hverjum tíma. 

Ákveði skilanefndirnar að nýta ekki rétt til að eignast meginhluta hlutafjár í Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi verða þeir áfram í eigu ríkisins að fullu.

Kostir

Eignist kröfuhafar nýju bankana að hluta eða í heild lækkar verulega sú fjárhæð sem ríkissjóður þarf að reiða af hendi til fjármögnunar bankanna. Jafnframt er þess að vænta að erlent eignarhald á bönkunum tryggi betur aðgang að erlendum lánamörkuðum. Þá standa vonir til þess að þeir sem á endanum eignast bankana og reka þá, búi yfir þekkingu á bankarekstri sem nýst getur í rekstri og þjónustu við viðskiptavini.  

Dreift eignarhald hefur ennfremur þann kost í för með sér að áhætta ríkisins af fjármálastarfsemi minnkar til muna.

Innstæður almennings tryggðar 

Allar innstæður viðskiptabanka sem hafa staðfestu á Íslandi eru tryggðar samkvæmt lögum um Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta. Ekkert breytist hvað það varðar, hvorki þó bankar fari úr eigu ríkisins, né heldur þó þeir verði að hluta til í eigu erlendra fyrirtækja eða einstaklinga.

Fjármálaráðuneytinu, 20. júlí 2009

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta