Nr. 27/2009 - Breyting á gildandi grænmetissamningi, viljayfirlýsing og nýjar reglur um merkingar á umbúðum matjurta.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands annars vegar, Bændasamtök Íslands og Samband garðyrkjubænda hins vegar undirrituðu í dag breytingar á gildandi aðlögunarsamningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá 12. mars 2002. Samhliða samningnum var einnig undirrituð „viljayfirlýsing“ um ásetning aðila um að aukna hagkvæmni íslenskrar ylræktar og að auka möguleika greinarinnar á komandi árum. Jafnhliða kynnti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nýjar reglur um merkingar á umbúðum matjurta.
Þessi samningur er sambærilegur breytingum á búvörusamningum sem gerðir voru 18. apríl sl. varðand framleiðslu mjólkur og kindakjöts.
1. Fjárhæðir.
- Framlög á árinu 2009 verði eins og fjárlög kveða á um, eða 251,7 m.kr.
- Framlög ársins 2010 verði 2% hærri en 2009 og verða 257,0 m.kr., óháð verðlagsþróun.
- Árið 2011 hækki framlög aftur um 2% frá árinu 2010, auk þess bætist við helmingur af því sem upp á vantar til að uppfylla samninginn. Þó verði hækkun milli ára ekki umfram 5%.
2. Samningsaðilar eru sammála um að framlengja samninginn um 2 ár eða til ársloka 2013 og verður hann vísitölubundinn frá þeim tíma. Sérstakt ákvæði um 2,5% hagræðingarkröfu fellur brott.
3. Undirrituð var svohljóðandi viljayfirlýsing: „Til að auka hagkvæmni íslenskrar ylræktar lýsa samningsaðilar yfir vilja sínum að skoða sameiginlega hvort hægt sé að draga enn frekar úr framleiðslukostnaði eins og með bættri orkunýtingu og með því að efla þróun og nýjungar almennt. Jafnframt þessu setja samningsaðilar sér það markmið að auka möguleika greinarinnar, t.d. með útflutningi og treysta hana þannig betur í sessi á komandi árum. Í þessu sambandi munu samningsaðilar setja á fót starfshóp sem hafi það hlutverk að leita leiða til að ná fram ofangreindum markmiðum.“
4. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undirritaði og kynnti reglugerð um breytingu um merkingu matvæla, en þar eru settar nýjar reglum um merkingar á umbúðum matjurta hvað varðar upplýsingar um upprunaland.
Á myndinn eru Haraldur Benediktsson, Jón Bjarnason, Þórhallur Bjarnason og Steingrímur J. Sigfússon.
Hér má sjá:
Breytingar á samningi um starfsskilyrði í garðyrkju.
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 503/2005, um merkingu matvæla.