Utanríkisráðherra afhendir formlega aðildarumsókn í Stokkhólmi
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra afhenti í morgun Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar og formanni ráðherraráðs Evrópusambandsins, formlega aðildarumsókn Íslands að sambandinu. Við afhendinguna í Stokkhólmi sagði Össur að þetta væri sögulegur dagur fyrir íslenska þjóð. Eftir margra ára umræður heimafyrir hæfist nú nýr kafli í samskiptum Íslands og Evrópu. Samningaviðræður sem framundan væru við ESB myndu taka á á köflum vegna sérstakra hagsmuna Íslands í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum en hann vonaðist engu að síður til að ná niðurstöðu sem væri hagstæð fyrir Ísland og Evrópusambandið.
Bildt fagnaði umsókn Íslands, sem hann sagði nú þegar í náinni samvinnu við ESB. Ísland hefði þegar tekið upp stóran hluta samþykkta sambandsins í samstarfinu innan Evrópska efnahagssvæðisins og Schengen. Gengi allt að óskum yrði Ísland góð viðbót við Evrópusambandið; rótgróið, norrænt lýðræðisríki, með þekkingu og reynslu af sjálfbærri nýtingu auðlinda og áherslu á Norðurslóðamál, en mikilvægi þess málaflokks myndi vafalaust aukast á næstu árum og áratugum.
Um næstu skref sagði Bildt að umsókn Íslands yrði tekin fyrir í samræmi við reglur ESB, fyrst myndi ráðherraráð ESB fjalla um hana og í framhaldinu yrði málið lagt fyrir framkvæmdastjórn ESB. Aðspurður hvort Icesave málið kynni að tefja afgreiðslu umsóknar Íslands hjá utanríkisráðherrum ESB sagði Bildt málin óskyld með öllu.