Endurmat á löggjöf og úrræðum fyrir skuldsett heimili
Félags- og tryggingamálaráðherra kynnti í ríkisstjórn í vikunni að sett yrði á fót nefnd til að endurskoða löggjöf sem lýtur að úrræðum fyrir heimili og einstaklinga í greiðsluerfiðleikum og leggja fram tillögur um leiðir til að styrkja stöðu lántakenda á fjármálamarkaði. Nefndin mun starfa í náinni samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, enda varða verkefni hennar stöðugleikasáttmála þeirra og stjórnvalda sem undirritaður var 25. júní sl. Gert er ráð fyrir að vinnu hennar verði hleypt af stokkunum með sameiginlegum fundi með aðilum vinnumarkaðarins á næstu dögum.
Nefndin er stofnuð að frumkvæði ráðherranefndar félags- og tryggingamálaráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra og viðskiptaráðherra sem hefur að undanförnu starfað að úttekt og endurmati á aðgerðum stjórnvalda til hjálpar skuldsettum heimilum í samræmi við 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar og verður skipuð fulltrúum ráðherranna þriggja.
Helstu verkefni nefndarinnar eru þessi:
- Að meta hvernig úrræði um almenna greiðsluaðlögun og tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna hafa nýst og kanna hvort breyta þurfi þeim skilyrðum sem um þessi úrræði gilda. Við þetta endurmat mun nefndin einnig kanna hvort ákvarðanir og úrvinnsla vegna greiðsluaðlögunar eigi betur heima innan stjórnsýslunnar en sem verkefni innan fullnusturéttarfars.
- Að endurmeta þá reglu um að innborganir á kröfur gangi fyrst til greiðslu kostnaðar og vaxta og fleiri atriði sem teljast sérstaklega íþyngjandi fyrir skuldara og draga úr hvata þeirra til að standa í skilum.
- Að leita leiða til að koma böndum á hámark innheimtukostnaðar lögmanna, t.d. með breyttum aðferðum við útreikninga innheimtuþóknunar og setningu hámarksþóknunar sem tengist fjárhæð kröfunnar.
Gert er ráð fyrir að nefndin skili ráðherranefndinni tillögum sínum áður en Alþingi kemur saman í haust.
Aukið svigrúm lánveitenda til að mæta einstaklingum í miklum greiðsluvanda
Í júní sl. setti fjármálaráðherra reglugerð um heimild lánveitenda til að fella niður skuldir einstaklinga án þess að eftirgjöfin teljist til tekna og reiknist til skatts. Með þessu sköpuðust ný tækifæri fyrir lánastofnanir til að koma til móts við einstaklinga í miklum greiðsluerfiðleikum án þess að grípa þurfi til formlegrar greiðsluaðlögunar fyrir dómstólum. Það er mat ráðherranefndarinnar að fjármálafyrirtæki muni nýta sér þetta svigrúm í vaxandi mæli á næstunni og því sé ekki ástæða til að koma á fót nýjum almennum úrræðum vegna húsnæðisskulda almennings að svo stöddu.