Hoppa yfir valmynd
28. júlí 2009 Innviðaráðuneytið

Almenningssamgöngur endurskoðaðar í samgönguáætlun

Meðal atriða í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að almenningssamgöngur verði sjálfsagður hluti samgönguáætlunar. Tilgangurinn er meðal annars sá að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem stafar frá samgöngum.

Umferðarmynd frá Hringveginum
Umferðarmynd frá Hringveginum

Unnið er nú að því í samgönguráðuneytinu að fara yfir tilhögun almenningssamgangna og ráðstöfun þess fjármagns sem veitt er til þeirra. Samgönguáætlun er endurskoðuð reglulega og nú fer fram undirbúningur fyrir tólf ára áætlun áranna 2010 til 2021.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að vinna skuli áætlun um sjálfbærar samgöngur í samvinnu við sveitarfélögin með það að markmiði að draga úr þörf fyrir einkabílinn. Einnig segir þar: ,,Í slíkri stefnu verði almenningssamgöngur um allt land stórefldar og fólki auðveldað að komast leiðar sinnar gangandi eða á reiðhjóli. Almenningssamgöngur verði sjálfsagður hluti samgönguáætlunar.” Um leið er í sömu yfirlýsingu lögð áhersla á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum samgangna: ,,Lokið verði við aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúslofttegunda um 50-75% til 2050, með tímasettum og tölulegum markmiðum, eigi síðar en vorið 2010. Í áætluninni verði lögð sérstök áhersla á samdrátt í losun frá samgöngum og fiskiskipum.”

Fundað með landshlutasamtökum sveitarfélaga

Við undirbúning næstu tólf ára samgönguáætlunar hefur samgönguráð í sumar haldið nokkra fundi með landshlutasamtökum sveitarfélaga úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu. Einnig var fulltrúum Samtaka atvinnulífsins boðið að sitja fund með samgönguráði. Fram kom á þessum fundum eindregin ósk um að bæta almenningssamgöngur.

Fjögurra ára samgönguáætlun áranna 2007 til 2010 gerir ráð fyrir að fyrirkomulag almenningssamgangna sé endurskoðað og að sveitarfélög taki hugsanlega við meiri ábyrgð á málaflokknum. Talið er að það geti haft ýmsa kosti í för með sér.

Skipta má almenningssamgöngum (siglingar, flug, akstur) hérlendis í þrennt:

  • Fólksflutninga milli sveitarfélaga.
  • Almenningssamgöngur innan sveitarfélaga.
  • Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, bæði innan sveitarfélaganna og milli þeirra.

Ríkissjóður veitir á þessu ári um 1,5 milljarð króna í styrki vegna almenningssamgangna milli sveitarfélaga eða byggðarlaga. Þess utan eru almenningssamgöngur innan sveitarfélaga og milli sveitarfélaga fjármagnaðar af nokkrum sveitarfélögum eða byggðasamlögum þeirra, til dæmis á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Ísafirði.

Gagnasöfnun og mat á nýtingu fjármuna

Margs konar upplýsinga- og gagnasöfnun fer nú fram á vegum ráðuneytisins til að unnt verði að meta nýtingu styrkja samgönguyfirvalda til almenningssamgangna og um leið við mat á því hvort endurskoða beri stefnuna í þessum málaflokki.

Styrkir til sérleyfisaksturs námu á síðasta ári um 240 milljónum króna en styrktar eru 40 áætlunarleiðir. Styrkir til ferjusiglinga námu rúmlega 800 milljónum króna á síðasta ári, þar af um 475 milljónir króna til Vestmannaeyjasiglinganna. Aðrar styrktar ferjuleiðir eru siglingar milli lands og Grímseyjar og Hríseyjar, siglingar um Breiðafjörð, ferja milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar og siglingar í Vigur og Æðey á Ísafjarðardjúpi.

Rúmlega 352 milljónum króna var varið til styrkveitinga í innanlandsflugi á síðasta ári og þar af fóru 123 milljónir í styrk til flugs milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Flug er einnig styrkt milli Reykjavíkur og Hafnar, Sauðárkróks, Bíldudals og Gjögurs og milli Akureyrar og Grímseyjar, Þórshafnar og Vopnafjarðar.

Verið er að vinna úr þeim gögnum sem fyrir liggja en við fyrstu sýn virðast þær  almenningssamgöngur sem styrktar eru af ríkissjóði verulega vannýttar  Það er í andstöðu við þá stefnu stjórnvalda að bæta almenningssamgöngur sem lið í að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum á samgangna. Huga þarf að þessu við gerð næstu samgönguáætlunar.

Meðal þeirra atriða sem hafa þarf í huga við áætlanagerð um almenningssamgöngur er verðlag þeirra, tíðni, forgangur í umferðinni og aðgengi sem flestra, svo dæmi séu nefnd. Einnig með hvaða hætti og með hvaða samgöngutækjum hentugast er að sinna slíkum samgöngum. Þá er talið rétt að huga að breyttum áherslum í almenningssamgöngum; innan þéttbýlis annars vegar og milli þéttbýliskjarna hins vegar. Þetta er í samræmi við áherslur sem fram hafa komið á fundum samgönguráðs með landshlutasamtökum sveitarfélaga.

 

Hugarfarsbreyting

Að lokum má minna á þann grundvöll sem telja má að góðar almenningssamgöngur hvíli á sem er hugarfarsbreyting landsmanna, að það sé í þágu einstaklinga sem þjóðfélagsins í heild að sem flestir nýti almenningsfarartæki og dragi úr notkun einkabílsins.

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta