Mat á arðsemi orkusölu til stóriðju: Fyrsta áfangaskýrsla
Fréttatilkynning nr. 53/2009
Helstu niðustöður
- Arðsemi af fjármagni bundið í orkuvinnslu rúmlega helmingi minni að jafnaði en í annarri atvinnustarfsemi að stóriðju og fjármálastarfsemi undanskilinni.
- Arðsemi íslenskra orkufyrirtækja talsvert lakari en orkufyrirtækja í Bandaríkjunum og Evrópu.
- Í Evrópu og Bandaríkjunum standast orkufyrirtæki arðsemiskröfu betur en aðrar atvinnugreinar, en á Íslandi gera þau það þriðjungi verr.
- Kostnaður vegna kaupa á kolefniskvótum getur haft umtalsverð áhrif á arðsemi orkufrekra fyrirtækja sem losa gróðurhúsalofttegundir.
- Miðað við líklegan náttúrukostnað af dæmigerðum virkjanaframkvæmdum er þjóðhagsleg arðsemi þeirra sennilega umtalsvert minni en hefðbundnir arðsemisreikningar gefa til kynna.
- Fyrirferð stóriðju jókst mjög í hagkerfinu fram á árið 2008. Ný álver tóku til starfa og verð á áli og orku hækkaði mikið um tíma. Þá hafa framkvæmdir við stóriðju kynt undir þenslu á vinnumarkaði undanfarin ár. Miklar sveiflur eru í þessum geira. Í júni 2009 er verð á áli og rafmagni frá stóriðju rétt rúmur helmingur þess sem var á sama tíma í fyrra í dollurum talið. Tekjur íslenskra orkufyrirtækja minnka að sama skapi og niðursveifla í efnahagslífinu verður meiri en ella.
Um skýrsluna
Á undanförnum árum hafa fjárfestingar í orkuverum til að selja orku til stóriðjuvera farið vaxandi hérlendis. Mest af þessum framkvæmdum hefur verið á vegum orkufyrirtækja í opinberri eigu. Mjög takmarkaðar athuganir á þjóðhagslegri hagkvæmni þessarar þróunar hafa verið gerðar. Efnahags- og þróunarstofnunin (OECD) hefur oftsinnis kallað eftir því í skýrslum sínum að gerð verði athugun á þessu, nú síðast í febrúar 2008.
Í apríl 2009 samdi Fjármálaráðuneytið við Sjónarrönd ehf. um að framkvæma mat á afrakstri orkusölu til erlendrar stóriðju fyrir íslenska þjóðarbúið. Verkefnið greinist í tvo meginverkþætti: Annars vegar skal leggja mat á arðsemi orkusölu til stóriðju; hins vegar skal meta þjóðhagsleg áhrif af erlendum fjárfestingum í stóriðju. Samkvæmt verkáætlun skyldi skila áfangaskýrslu í maí á þessu ári og endanlegum niðurstöðum síðar á árinu.
Fyrir hönd Sjónarrandar hafa eftirtaldir unnið að gerð þessarar skýrslu: Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur, Dr. Sigurður Jóhannesson hagfræðingur, Dr. Ásgeir Jónsson lektor við Háskóla Íslands og Dr. Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Ljóst er að orkuframkvæmdir til stóriðjunota hafa ýmsar efnahagslega jákvæðar hliðar. Á móti þessum kostum koma hins vegar veigamikil atriði sem hugsanlega eru neikvæð. Takmarkaðar upplýsingar og rannsóknir liggja fyrir um þessa þætti alla og þar með afrakstur mjög hraðrar uppbyggingar í orkuiðnaði og stóriðju – þ.e. hve ódýra orku Íslendingar geta raunverulega boðið án þess að bera skarðan hlut frá borði. Markmið þeirrar úttektar sem skýrsluhöfundar hafa tekið að sér að vinna er að varpa ljósi á þetta. Annars vegar verður lagt mat á arðsemi fjárfestinga í orkusölu til stóriðju með tilliti til allra þátta sem máli skipta. Hins vegar verður skoðað hvaða hag Íslendingar hafa af fjárfestingum útlendinga hér á landi og er þá sér í lagi horft til stóriðju.
Áfangaskýrslan sem hér birtist er fyrsti liður í ofangreindri úttekt. Í skýrslunni er fjallað um nokkur meginviðfangsefni úttektarinnar. Birt er samantekt á vísbendingum um arðsemi íslenskra orkufyrirtækja, annars vegar í samanburði við innlend fyrirtæki og hins vegar í samanburði við erlend orkufyrirtæki. Fjallað er um áhrif mats á náttúrugæðum á arðsemi stórframkvæmda og um leiðir til að meta verðmæti losunarkvóta kolefnis gagnvart stóriðju hérlendis. Að lokum er farið yfir helstu atriðin sem máli skipta við mat á þjóðhagslegum áhrifum erlendra stóriðjufjárfestinga.
Reykjavík 28. júlí 2009
Skjöl