Snjóflóðavarnargarðar vígðir á Siglufirði
Snjóflóðavarnargarðar fyrir ofan Siglufjörð voru vígðir fyrr í þessum mánuði. Um er að ræða fimm þvergarða og einn leiðigarð ofan byggðarinnar sem tryggja eiga öryggi Siglfirðinga gagnvart snjóflóðum. Hægt er að nálgast yfirlitskort af svæðinu á heimasíðu Fjallabyggðar.
Við þetta tækifæri voru görðunum gefin nöfn sem dómnefnd valdi úr hópi níu tillagna sem bárust í nafnasamkeppni. Nyrsta leiðigarðinum var gefið nafnið Kálfur en þvergarðarnir hlutu nöfnin Hlíðarrípill, Hafnarrípill, Skriðurípill, Skálarrípill og Bakkarípill. Orðið rípill merkir garður og fyrri hlutar nafnanna eru dregnir af nöfnum jarða eða öðrum örnefnum í grennd við garðana. Um þetta má lesa á heimasíðu Fjallabyggðar. Bæjarráð Fjallabyggðar samþykkti í gær að gefa samkomusvæði snjóflóðavarnargarðanna nafnið Ríplabás. Tillöguna að nafninu á Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Eldri hlutar snjóflóðavarnargarða ofan Siglufjarðar voru byggðir á árunum 1998 og 1999 til að verja syðsta hluta byggðarinnar þar sem tíð snjóflóð falla úr Strengsgiljum. Þessi mannvirki eru nú orðin hluti af bæjarlandslaginu. Mikil áhersla hefur lögð á mótun garðanna, uppgræðslu, trjárækt og gerð göngustíga og útivistarsvæða þannig að framkvæmdirnar falli sem best að umhverfinu og stuðli um leið að bættri aðstöðu til útivistar. Fyrsti hluti framkvæmdanna hlaut sérstaka viðurkenningu við veitingu Rosa Barba verðlaunanna í landslagshönnun 2003.
Í máli Svandísar Svavarsdóttur við vígslu garðanna kom fram að árið 1996 hafi umhverfisráðuneytið ákveðið að efla verulega rannsóknir á snjóflóðum og koma á öflugu eftirliti með snjóflóðahættu. Þá var unnin yfirgripsmikil úttekt á öllum helstu snjóflóðahættusvæðum í byggð og metnir líklegir varnarkostir á hverjum stað. Í framhaldi af þeirri úttekt var ákveðið í samráði við viðkomandi sveitarfélög að ráðast í byggingu varanlegra snjóflóðavarna og tryggja þannig öryggi fólks og treysta þannig byggð í landinu. Um er að ræða stórt verkefni sem mun enn taka mörg ár að ljúka að fullu.
Ofanflóð og þá einkum snjóflóð hafa valdið meira manntjóni á Íslandi en nokkrar aðrar náttúruhamfarir. Á 20. öldinni létust til að mynda 166 manns í snjóflóðum og þar af fórust 107 í þéttbýli. Í kjölfar snjóflóðanna á norðanverðum Vestfjörðum 1995 sem urðu 34 að bana mörkuðu stjórnvöld stefnu um skipulegt áhættumat á hættusvæðum víðsvegar um landið og síðan markvissa uppbyggingu snjóflóðavarna sem sveitarfélögin skyldu standa fyrir, en með fjárhagsaðstoð Ofanflóðasjóðs. Var umhverfisráðuneytinu falið að annast umsjón með framkvæmdinni af hálfu ríkisvaldsins og tók það formlega við verkefninu 1. janúar 1996.