Breytt skipulag lögreglu í undirbúningi og grunnþjónusta lögreglu skilgreind
Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra hefur ákveðið að hefja undirbúning að breyttu skipulagi lögreglu. Unnið verði að tillögu þess efnis að lögregluumdæmi landsins verði stækkuð frá því sem nú er og verði 6-8 talsins, og starfi þau undir forystu umdæmisstjóra. Ráðgert er að þeir verði undir stjórn eins lögreglustjóra á landsvísu, sem yrði nýtt embætti. Þannig verði lögregluembættin í landinu sameinuð í eitt lögreglulið. Munu umdæmin njóta styrks hvert af öðru auk miðlægrar starfsemi á sviði fjarskipta, rannsókna, sérsveitar og starfsmannahalds, svo eitthvað sé nefnt. Skipulagsbreytingin hefur það að markmiði að tryggja þá grunnþjónustu sem lögreglu ber að veita og nýta sérhæfingu innan lögreglunnar þannig að það gagnist sem best um land allt. Stjórnunarkostnaður verður lækkaður eins mikið og unnt er til að mæta sparnaðarkröfum næstu ára.
Tillagan er afrakstur vinnu starfshóps sem ráðherra fól að fara yfir skipulag lögreglunnar hér á landi, m.a. með tilliti til núverandi aðstæðna í ríkisfjármálum og leggja áherslu á að nýta sem best þá fjármuni sem Alþingi veitir til löggæslu. Starfshópurinn ræddi við ýmis samtök lögreglumanna, lögreglustjóra, fulltrúa ákæruvalds o.fl. og gerði ráðherra grein fyrir þeim sjónarmiðum sem fram komu á þeim fundum. Ræddar voru ýmsar leiðir í skipulagsbreytingum og hefur ráðherra nú óskað eftir að hópurinn vinni að nánari útfærslu ofangreindrar tillögu og áætlun um framkvæmd hennar. Miðað er við að hópurinn skili drögum að frumvarpi í september.
Fundað með lögreglustjórum
Ráðherra fundaði í dag með lögreglustjórum á landinu og stjórn landssambands lögreglumanna til að kynna þeim þessa tillögu að nýju skipulagi. Voru framangreind áform rædd og kostir þeirra og gallar. Í framhaldinu verður eins og að framan greinir unnið áfram með tillöguna en endanleg ákvörðun um skipulag liggur ekki fyrir. Í vinnunni verður haft að leiðarljósi að hlusta eftir sjónarmiðum starfsmanna embættanna og þess gætt að skipulagsbreytingar valdi sem minnstu raski fyrir starfsemi lögreglu svo og borgara landsins. Þá verður leitað eftir sjónarmiðum sveitarfélaga við þessa vinnu.
Samhliða vinnu starfshópsins hefur ráðherra falið embætti ríkislögreglustjóra að vinna að skilgreiningu á grunnþjónustu lögreglunnar sem unnt er að nota sem grundvöll við ákvörðun á inntaki lögreglustarfsins, áætlun um mannaflaþörf í umdæmum o.fl.
Hópurinn er skipaður þeim Hauki Guðmundssyni skrifstofustjóra, sem er jafnframt formaður, Arnari Guðmundssyni, skólastjóra Lögregluskóla Íslands, og Ásdísi Ingibjargardóttur skrifstofustjóra. Formenn Lögreglustjórafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna, þeir Kjartan Þorkelsson og Snorri Magnússon, hafa að ósk ráðherra tekið að sér að starfa með hópnum.