Nr. 29/2009 - Þrjár reglugerðir vegna fiskveiðistjórnunarinnar 2009-2010 undirritaðar
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hefur í dag undirritað þrjár reglugerðir: Reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2009-2010, reglugerð um sérstaka úthlutun til skel- og rækjubáta og reglugerð um línuívilnun.
Í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni á fiskveiðiárinu 2009/2010 eru tilgreindar aflaheimildir í einstökum tegundum, sem úthlutað verður á grundvelli aflahlutdeildar eða krókaaflahlutdeildar skips. Fram kemur í 2. gr. reglugerðarinnar hversu mikið kemur til úthlutunar þegar frá hafa verið dregnar þær aflaheimildir sem ráðstafað verður samkvæmt sérstökum heimildum í lögum um stjórn fiskveiða:
Sérstakar heimildir:
1. Til eflingar sjávarbyggðum með úthlutun byggðakvóta, en sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason hefur ákveðið að úthluta til byggðakvóta 3.885 tonnum, en með þeirri úthlutun hefur verið ákveðið að skerða ekki byggðakvótann að hluta líkt og gert var á núgildandi fiskveiðistjórnunarári fyrir strandveiðar.
2. Til stuðnings skel- og rækjubátum sem orðið hafa fyrir verulegri skerðingu aflaheimilda. Úthlutinin er óbreytt frá þessu ári en hér er vísað til þess að nú er að hefjast endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins og hlýtur þessi þáttur að koma til endurskoðunar líkt og svo margt annað.
3. Til línuívilnunar en 500 tonnum af ýsu er nú ráðstafað umfram síðasta ár til hennar. Fram hefur komið að línuívilnun er fyrirkomulag sem þykir hafa í aðalatriðum tekist vel og er atvinnuskapandi. Rétt þykir því að auka vægi hennar nokkuð.
Samtals nema þær heimildir sem hér er um að ræða 10.473 þorskígildislestum.
Að öðru leyti er ekki um að ræða breytingar hvað þetta varðar í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni frá síðasta fiskveiðiári.
Reglugerð um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2009/2010
Reglugerð um sérstaka úthlutun til skel- og rækjubáta