Tvær nýjar leiðir á Vestfjörðum í sjónmáli
Tvær nýjar leiðir verða senn opnaðar í vegakerfinu á Vestfjörðum. Annars vegar er það nýr vegarkafli í Ísafjarðardjúpi við Mjóafjörð og hins vegar nýr vegur um Gautsdal og Arnkötludal.
Nýr vegur um Gautsdal og Arnkötludal eða Tröllatunguvegur verður tekinn í notkun í lok sumars en framkvæmdir við hann hafa staðið allt frá haustinu 2007. Vegurinn liggur milli Vestfjarðavegar við Króksfjarðarnes og Streingrímsfjarðar og verður 24 km langur. Hann fer hæst í nærri 380 metra hæð og má gera ráð fyrir að megin umferðin milli Hólmavíkur og norðanverðra Vestfjarða og síðan Suður- og Vesturlands flytjist frá Strandavegi á hina nýju leið. Verktaki er Ingileifur Jónsson og eru áætluð verklok í október á þessu ári.
Annað stóra verkefnið á Vestfjörðum er kafli á Djúpvegi milli Reykjaness við Ísafjarðardjúp og Hörtnár í Mjóafirði. Sá kafli er 14,5 km langur og þar voru byggðar þrjár nýjar brýr, sú lengsta á Mjóafirði, 160 m löng og var steypuvinnu við gólf hennar lokið um miðjan júlí. Unnið er nú að frekari frágangi við brúna. Gert er ráð fyrir að hleypa umferð á þennan kafla síðla ágústmánaðar. Verktaki þessa kafla eru KNH og Vestfirskir verktakar. Áður hafði verið endurnýjaður um 10 km kafli í vestanverðum Ísafirði sem KNH annaðist.
Þá er unnið við kafla á Vestfjarðavegi milli Þverár í Kjálkafirði og Þingmannaár í Vatnsfirði. Er það endurbygging á um 15 km kafla og verktakinn er Ingileifur Jónsson. Önnur minni verkefni er breikkun og styrking á vegarkafla í Bitrufirði og hluti Strandavegar milli Hólmavíkur og Drangsness hefur verið lagður bundnu slitlagi.
Umfangsmesta framkvæmdin á Vestfjörðum um þessar mundir eru Bolungarvíkurgöngin. Búið er að grafa nærri 80% ganganna eða rúmlega 4.100 metra en alls verða þau 5.156 metrar að lengd. Verktakinn er Ósafl, samsteypa Íslenskra aðalverktaka og svissneska verktakafyrirtækisins Marti Contractors. Gert er ráð fyrir að gangagerðinni og tilheyrandi vegagerð verði lokið næsta sumar sem samkvæmt verksamningi á að vera 15. júlí.
Kortið hér að neðan er af upplýsingavef um göngin sem Vegagerðin og bb.is reka sameiginlega.