Drög að frumvarpi til laga um ökutækjatryggingar og skaðabótaábyrgð vegna ökutækja.
Þann 1. júlí 2008 skipaði viðskiptaráðherra nefnd sem falið var það verkefni að semja frumvarp til laga um ökutækjatryggingar. Ráðuneytið fékk Guðnýju Björnsdóttur hdl., til að stýra starfi nefndarinnar en auk hennar sátu í nefndinni, Arnaldur Hjartarson hdl., tilnefndur af FÍB, Helga Jónsdóttir hdl., tilnefnd af SFF og Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri hjá FME, tilnefndur af FME. Nefndin hefur nú skilað drögum að frumvarpi
Í XIII. kafla umferðalaga eru ákvæði um fébætur og vátryggingu. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að sérstök lög muni gilda um vátryggingar og ábyrgð vegna tjóna af völdum vélknúinna ökutækja í stað þess að slík ákvæði verði í sérstökum kafla í nýjum umferðalögum. Í drögum að frumvarpi er lagt til að vátryggingaskylda nái áfram til sömu tegunda vélknúinna ökutækja og áður að viðbættum vinnuvélum sem notaðar eru í umferð á vegum. Í núgildandi lögum fer saman skráningarskylda ökutækja og vátryggingaskylda. Vakin er athygli á því að samkvæmt drögum að frumvarpi til nýrra umferðalaga er lögð til grundvallarbreyting á ákvæði um skráningarskyldu þar sem m.a. er lagt til að færri ökutæki verði skráningarskyld en nú er.
Í tillögu nefndarinnar er einnig lögð til breyting á fyrningarreglum, þannig að bætur vegna líkamstjóns fyrnist á 10 árum frá tjónsatburði í stað tvenns konar fyrningarfrests samkvæmt gildandi lögum, auk þess sem lagt er til að ýmis ákvæði s.s. um lok vátryggingar og tjón af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja sem verið hafa í reglugerð verði framvegis í lögum.
Í störfum sínum hefur nefndin fylgst með störfum nefndar samgönguráðherra sem hafði það hlutverk að semja drög að nýjum umferðalögum. Drög að nýjum umferðalögum eru til opinberrar umsagnar á síðu samgönguráðuneytis, www.samgonguraduneyti.is, til 15. september næstkomandi.
Almenningi er nú gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum um frumvarpsdrögin. Er þess óskað að athugasemdir berist fyrir 15. september næstkomandi á netfangið: [email protected]. Ráðuneytið mun við fullvinnslu frumvarpsins hafa innkomnar athugasemdir til hliðsjónar, en fyrirhugað er að frumvarpið verði lagt fram á haustþingi.
Frumvarp til laga um ökutækjatryggingar og skaðabótaábyrgð vegna ökutækja (pdf-skjal)