Ísland meðflutningsaðili að nýrri ályktun öryggisráðs SÞ um börn í vopnuðum átökum
Þann 4. ágúst sl. samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna einróma ályktun 1882, sem lýtur að því að vernda börn í vopnuðum átökum. Ísland var eitt 43 aðildarþjóða Sameinuðu þjóðanna sem lögðu ályktunina fram.
Ályktun 1882 hefur það í för með sér að aðilar í vopnuðum átökum sem hafa gerst sekir um að myrða og limlesta börn eða beita þau kynferðislegu ofbeldi verða nafngreindir og taldir upp í skýrslu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um börn í vopnuðum átökum. Til þessa hafa eingöngu ríki og hópar sem hafa notað börn í hernaði verið nafngreind í umræddri skýrslu.
Þeim ríkjum og hópum sem um ræðir ber að setja fram aðgerðaráætlun um hvernig draga megi úr og koma í veg fyrir slíka glæpi. Með ályktuninni staðfesti öryggisráðið vilja sinn til að grípa til aðgerða gagnvart aðilum sem ítrekað hafa gerst sekir um slíka glæpi og sýnt lítinn vilja til úrbóta.