Suðurlandsskógar
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason hélt í ferð á Suðurland fyrir skömmu ásamt m.a. Atla Gíslasyni alþingismanni og formanni sjávarútvegs og landabúnaðarnefndar og Jóni Birgi Jónssyni formanni vinnuhóps um endurskoðun landshlutaáætlananna. Ráðherra kynnti sér starfsemi Suðurlandsskóga og í því skyni heimsótti hann undir handleiðslu Björns B. Jónssonar og Böðvars Guðmundssonar, starfsmanna Suðurlandsskóga, eftirtalda bændur og starfsmenn Suðurlandsskóga:
- Sigurð Hermannsson skógarbónda í Gerðakoti Ölfusi, en hann hefur einn af mikilli elju og dugnaði ræktað rúmlega 60 ha af skógi á landareign sinni frá árinu 1997.
- Hörpu Dís Harðardóttur umdæmisstjóra Suðurlandsskóga í Árnessýslu, Björnskoti á Skeiðum. Umdæmisstjórar Suðurlandsskóga sjá um leiðbeiningar, afhendingu plantna og eftirlit með ræktuninni. Harpa Dís er skógfræðingur frá Lbhí.
- Guðmund Sigurðsson og Bergljótu Þorsteindóttur bændur Reykhóli á Skeiðum. Þeirra skógrækt samanstendur fyrst og fremst af ræktun skjólbelta sem nú munu vera rétt um 10 km að lengd.
- Sigurbjörgu Snorradóttur Galtalæk Biskupstungum og dóttur hennar, Agnesi Geirdal, sem er formaður sunnlenskra skógarbænda. Þær eru með ásamt sínu fólki skógrækt á 500 ha á alls 3 jörðum. Á þessum jörðum er stefnt fullum fetum að stórfelldri viðarframleiðslu í framtíðinni.
- Hólmfríði Geirsdóttur og Steinar Jensson Garðyrkjustöðinni Kvistum. Þessi stöð einbeitir sér fyrst og fremst að framleiðslu skógarplantna og er reiknað með að framleiðslan í ár verði hvorki meira né minna en um 1 millj. plöntur.
- Sigríði Sigurfinnsdóttur og Gunnar Sverrisson skógarbændur í Hrosshaga. Þau voru með þeim fyrstu sem hófu bændaskógrækt á Suðurlandi. Samtals er undir 75 ha og eftir nokkur ár er komið að fyrstu grisjun.
Suðurlandsskógar er átaksverkefni í skógrækt á Suðurlandi til 40 ára. Takmarkið er að rækta upp skóg í 5% af láglendi Suðurlands á tímabilinu. Lög um Suðurlandsskóga voru sett á Alþingi 1997, en ný lög um landshlutaverkefnin, sem Suðurlandsskógar heyra undir, voru samþykkt 2. júní 2006. Fyrst var gróðursett undir merkjum Suðurlandsskóga vorið 1998.
Starfssvæði verkefnisins nær yfir Reykjanes, Árnessýslu, Rangárvallasýslu og báðar Skaftafellssýslur. Markmiðið með Suðurlandsskógum er að gefa sem flestum tækifæri á að taka þátt í fjölnytjaskógrækt á Suðurlandi og stuðla þannig að þróun og viðhaldi byggðar á svæðinu jafnframt því að græða og bæta landið fyrir komandi kynslóðir og skapa nýja náttúruauðlind fyrir komandi kynslóðir. Með fjölnytjaskógrækt, sem er þýðing á ensku orðunum multiple use forest er í raun átt við hvers konar skógrækt, sem gefur af sér hinar fjölbreyttustu nytjar eins og við, ber og sveppi, skjól og útivist, landslagsfegurð og margt fleira. Verkefnið skiptist í þrjá meginþætti: timburskógrækt, skjólbeltarækt og landbótaskógrækt, en allir þættirnir skarast á mörgum sviðum.
Heimasíða Suðurlandsskóga er http://sudskogur.is/ og margvíslegan fróðleik um verkefnið er í ársskýrlsu þess: http://sudskogur.is/AiconUploads/data/MediaArchive/arsskyrsla_2008.pdf
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason vill láta í ljós ánægju sína með hvernig bændur ná árangri í skógrækt á Íslandi, en dregur í efa að öllum sé kunnugt um það gríðarlega mikla starf sem unnið hefur verið undanfarinn áratug eða meira í landshlutaverkefnum í skógrækt. Nú fer í hönd endurskoðun á landshlutaáætlununum. Eflaust kemur fram að ýmislegt megi bæta sem er eðlilegt, en í grundvallaratriðum sýnist liggja fyrir að ná megi árangri hér á landi í skógrækt sem er sambærilegur við nágrannalönd okkar og að markaður fyrir innlendan við er smám saman að myndast. Skógrækt er hins vegar margra áratuga ef ekki aldarverkefni og því er mikilvægt að halda kúrsinum þrátt fyrir tímabundnar efnahagslegar þrengingar.