Notkun frjáls hugbúnaðar í skólakerfinu
Til framhaldsskóla
Menntamálaráðuneytið hefur í sumar í samstarfi við áhugafólk um frjálsan hugbúnað á Íslandi hugað að leiðum til að auka notkun frjáls hugbúnaðar í skólakerfinu. Ástæðan er tvíþætt, annars vegar sú að auka þekkingu og færni nemenda þegar kemur að upplýsingatækni en einnig hefur reynsla einstakra skóla gefið til kynna að nokkur sparnaður náist ef skipt er yfir í frjálsan hugbúnað.
Ljóst er að skólar eru komnir misjafnlega langt í að nýta frjálsan hugbúnað. Því hefur menntamálaráðuneytið áhuga á að starfa með skólunum að því að veita upplýsingar um og greiða fyrir aðgengi að frjálsum og opnum hugbúnaði. Meðal annars hefur ráðuneytið hug á því að skapa í samstarfi við Félag um stafrænt frelsi miðlæga upplýsingaveitu sem auðveldar skólum að deila reynslu sinni og þannig styrkja hver annan.
Í mars 2008 gáfu stjórnvöld út stefnu um frjálsan og opinn hugbúnað (http://ut.is). Stefnan nær til allra stofnana sem eru reknar fyrir opinbert fé. Í henni eru menntastofnanir hvattar til að stuðla að því að nemendur fái tækifæri til að kynnast og nota frjálsan hugbúnað til jafns við séreignarhugbúnað.
Menntamálaráðuneytið vill hvetja menntastofnanir til að taka upp notkun á opnum og frjálsum hugbúnaði í meira mæli, þannig má auka notkun upplýsingatækni í námi og kennslu. Nemendur kynnast hugbúnaði sem þeir geta nýtt sér til að auka námsafköst sín og kennarar geta nýtt upplýsingatæknina til að auka fjölbreytni kennsluaðferða.
Ef þinn skóli hefur áhuga á að taka þátt í þessu starfi með menntamálaráðuneytinu, vinsamlegast hafðu samband við Sigurbjörgu Jóhannesdóttur sérfræðing á skrifstofu menntamála ([email protected]).