Sett tímabundið í tvær stöður héraðsdómara við héraðsdóm Reykjavíkur
Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra setti 12. ágúst sl. í stöður tveggja héraðsdómara við héraðsdóm Reykjavíkur vegna leyfis skipaðra héraðsdómara. Unnur Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, var sett í embætti héraðsdómara til tíu mánaða, frá 1. september 2009 til og með 20. júní 2010, og Áslaug Björgvinsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, var sett í sex mánuði, frá 1. september 2009 til 28. febrúar 2010.
Umsækjendur um stöðu héraðsdómara til tíu mánaða, auk Unnar, voru Ásta Stefánsdóttir, aðstoðarmaður héraðsdómara, Barbara Björnsdóttir, aðstoðarmaður hæstaréttardómara, og Ingiríður Lúðvíksdóttir, aðstoðarmaður héraðsdómara. Að auki taldist einn umsækjanda ekki uppfylla starfsgengisskilyrði 7. tl. 2. mgr. 12. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 og einn umsækjanda dró umsókn sína til baka.
Umsækjendur um stöðu héraðsdómara til sex mánaða, auk Áslaugar, voru Ásta Stefánsdóttir, aðstoðarmaður héraðsdómara, Barbara Björnsdóttir, aðstoðarmaður hæstaréttardómara, Eygló S. Halldórsdóttir, ritstjóri Stjórnartíðinda, Ingiríður Lúðvíksdóttir, aðstoðarmaður héraðsdómara og Unnur Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu. Að auki taldist einn umsækjanda ekki uppfylla starfsgengisskilyrði 7. tl. 2. mgr. 12. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 og einn umsækjanda dró umsókn sína til baka.