Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýskipan almannatrygginga

Verkefnisstjórn um endurskoðun almannatryggingakerfisins hefur skilað félags- og tryggingamálaráðherra drögum að skýrslu um nýskipan málaflokksins. Í skýrslunni koma fram tillögur sem lúta að heildstæðri framtíðaruppbyggingu kerfisins og einföldun þess, meðal annars með fækkun bótaflokka og einfaldari og sanngjarnari notkun frítekjumarka og reglna um skerðingu bóta. Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu er nú unnið að frekari útfærslu á tillögum nefndarinnar en þær hafa einnig verið sendar til umsagnar hjá hagsmunasamtökum eldri borgara og öryrkja, aðilum vinnumarkaðarins, landssamtökum lífeyrissjóða og fleiri aðilum. Stefnt er að því að frumvarp til laga um framtíðarskipan almannatryggingakerfisins verði lagt fram á vorþingi 2010.

Auk gagngerrar endurskoðunar á almannatryggingakerfinu er unnið að breytingum á fyrirkomulagi örorkumats með það fyrir augum að efla starfsendurhæfingu og aðgerðir sem hvetja fólk til virkni. Áhersla verður lögð á að meta fremur getu fólks til starfa en vangetu og er þess vænst að fleira fólki en áður verði beint á endurhæfingarlífeyri í stað örorkulífeyris. Gert er ráð fyrir að vinnu við þessar breytingar verði lokið innan árs.

Hluti af endurskoðun almannatryggingakerfisins og nýskipan málaflokksins lýtur að fyrirhugaðri sameiningu Tryggingastofnunar ríkisins, Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins. Frummat á kostum og göllum þess að sameina þessar stofnanir bendir til þess að þannig megi ná fram samlegðaráhrifum sem leiði til aukinnar hagkvæmni í rekstri og bættrar þjónustu. Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu er unnið að undirbúningi frumvarps um sameiningu þessara stofnana.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta