Samstarf um sköpun nýrra atvinnutækifæra
Verkefnið Starfsorka er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem hófst í ársbyrjun 2009. Verkefnið er byggt á reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innann atvinnuleysiskerfisins í vinnumarkaðsúrræðum og er markmið þess að fjölga slíkum úrræðum til að bregðast við auknu atvinnuleysi.
Undanfarna mánuði hefur verið samið við 60 fyrirtæki um tæplega 140 störf sem teljast til vinnumarkaðsúrræða. Impra leggur mat á framgang verkefna að baki samningunum og standa vonir til þess að einhver þessara starfa leiði til ótímabundinna ráðninga.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands stendur fyrir ýmsum námskeiðum sem ætluð eru fólki í atvinnuleit og hefur Vinnumálastofnun að undanförnu vísað fólki þangað. Stofnuninni er heimilt að greiða allt að helming námskeiðsgjaldsins fyrir þátttakendur en þó aldrei hærri fjárhæð en 70.000 krónur. Af einstökum námskeiðum má nefna Brautargengi sem ætlað er konum með nýjar viðskiptahugmyndir og konum í fyrirtækjarekstri, Stofnun og rekstur smáfyrirtækja, Frumkvöðlanám og Verkefnisstjórnun. Nýtt átaksverkefni, Drifkraftur, hefst í byrjun september og er ætlað útlendingum sem búsettir eru á Íslandi og hyggjast stunda atvinnurekstur.
Vinnumálastofnun er heimilt að gera samning við atvinnuleitendur um að þeir vinni í allt að sex mánuði að þróun eigin viðskiptahugmyndar en fái samtímis greiddar atvinnuleysisbætur. Markmið þessa er að liðsinna fólki við að skapa sér starf til framtíðar. Í júní hafði Vinnumálastofnun gert átta samninga af þessu tagi.
Samstarf Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands mun halda áfram með það að markmiði að skapa fleiri atvinnutækifæri á vinnumarkaði.