Forsætisráðherra ræðir við framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, bauð Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og fylgdarliði hans til hádegisverðar í Ráðherrabústaðnum í dag, en áður áttu þau stuttan fund þar sem forsætisráðherra gerði framkvæmdastjóranum m.a. grein fyrir pólitískum og fjárhagslegum afleiðingum þeirrar ákvörðunar breskra stjórnvalda að beita hryðjuverkalögum gegn íslenskum fyrirtækjum og stofnunum á síðastliðnum vetri.
Forsætisráðherra fagnaði því að ákvæðum laganna hefði nú verið aflétt en lagði áherslu á hversu slæmt fordæmi hefði verið sett í samskiptum bandalagsríkja, þegar löggjöf sem aðallega væri ætluð til nota í sameiginlegri baráttu gegn alþjóðlegri hryjuverkastarfsemi, hefði verið beitt gegn vinaþjóð sem hefði orðið fyrir gífurlegu áfalli vegna hruns fjármálakerfisins.
Jafnframt lýsti forsætisráðherra sérstakri ánægju með að Anders Fogh Rasmussen hefði tekið við starfi framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og að Ísland væri fyrsta aðildarríkið sem hann heimsækti eftir að hann hóf störf. Þau ræddu einnig önnur alþjóðamál, þ.á m. framkvæmd forsetakosninganna í Afganistan í dag og málefni sem tengjast starfi bandalagsins.
Reykjavík 21. ágúst 2009