Utanríkisráðherra fundar með NATO, ESB formennsku og Eistlandi
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í dag fundi með Anders Fogh Rasmussen, nýjum aðalframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, Carl Bildt utanríkisráðherra Svíþjóðar sem gegnir formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins og Urmas Paet utanríkisráðherra Eistlands.
Á öllum fundunum fór utanríkisráðherra yfir stöðuna í íslenskum stjórnmálum, gerði grein fyrir umræðunni um Icesave-málið á Alþingi og útskýrði rækilega fyrirvarana sem fjórir flokkar í fjárlaganefnd Alþingis hefðu komið sér saman um.
Utanríkisráðherra kom á framfæri óánægju með að ein aðildarþjóða NATO, Bretland, hefði beitt hryðjuverkalögum gegn Íslandi, einni af stofnþjóðum bandalagsins.
Þeir Össur og Anders Fogh Rasmussen ræddu m.a. Norðurslóðamál, loftrýmiseftirlit og endurskoðun á grundvallarstefnu Atlantshafsbandalagsins. Össur fagnaði því sérstaklega að hinn nýi framkvæmdastjóri skyldi kjósa að sækja Ísland fyrst heim af aðildarlöndum bandalagsins.
Rasmussen gerði utanríkisráðherra grein fyrir helstu áhersluatriðum sínum í starfi, ræddi aðgerðir bandalagsins og stöðu mála í Afganistan en þar fóru í dag fram forsetakosningar.
Á fundi utanríkisráðherra með Carl Bildt var rætt um samskipti Íslands og Evrópusambandsins og stöðuna í umsóknarferli Íslendinga eftir að ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti að vísa umsóknin Íslands til meðferðar hjá framkvæmdastjórn bandalagsins. Carl Bildt lýsti helstu verkefnum Evrópusambandsins um þessar mundir og fór yfir stöðuna í alþjóðamálum.
Þá átti ráðherra fund með Urmas Paet utanríkisráðherra Eistlands en í dag er þjóðhátíðardagur Eistlands þar sem því er fagnað að 18 ár séu frá því að ríkið öðlaðist sjálfstæði. Össur færði hinum eistneska starfsbróður sínum og Eistum sérstakar hamingjuóskir af því tilefni.
Ráðherrarnir ræddu samskipti ríkjanna og áhrif fjármálakreppunnar en Eystrasaltsríkin hafa ekki farið varhluta af henni frekar en Ísland. Þá ræddu þeir Evrópusambandsumsókn Íslands, sem Paet fagnaði. Miðlaði hann af reynslu Eista af umsóknarferlinu og bauð Íslendingum ráðgjöf og aðstoð í því starfi sem framundan er.
Þeir Bildt og Paet eru hér á landi til að sækja fund utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem haldi