Tekjuþróun breytileg eftir tekjubilum
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 20. ágúst 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Fjármálaráðuneytið fylgist reglulega með staðgreiðslu af tekjum einstaklinga í þeim tilgangi að geta lagt betra mat á þróun efnahagslífsins og jafnframt tekjuþróun ríkissjóðs.
Miklar sviptingar hafa verið í tekjuöflun einstaklinga á umræddu tímabili og því er líklegt að pöruð gögn gefi betri vísbendingu um tekjuþróun einstaklinganna en heildartölur. Þannig voru um 37.000 manns á staðgreiðsluskrá í maí í fyrra sem eru það ekki nú og þá eru um 15.000 manns með laun í maí 2009 sem ekki voru á staðgreiðsluskrá í sama mánuði í fyrra. Vitað er að allmargir hafa annað hvort flutt til útlanda eða eru ekki lengur með tekjur á Íslandi. Þá er líklegt að endanleg staðgreiðsluskil maímánaðar verði ekki ljós fyrr en að nokkrum mánuðum liðnum.
Í könnun á pöruðum samanburði á upplýsingum um tæplega 190.000 einstaklinga sem höfðu einhverjar staðgreiðsluskyldar tekjur í maí 2008 og í sama mánuði í ár kemur fram að launasumma hópsins er 5,0% lægri nú en var fyrir ári meðan skattgreiðslur eru 5,6% lægri. Ráðstöfunartekjur, framtaldar tekjur að frádreginni staðgreiðslu, eru 4,8% minni en var fyrir ári síðan. Þegar tekið er tillit til 11,6% hækkunar vísitölu neysluverðs yfir tímabilið, kemur í ljós að raunlækkun tekna er 14,9% en ráðstöfunartekjur eru 14,7% lægri að raunvirði en var ári fyrr.
Tekjubreytingin kemur síður en svo jafnt við alla. Á meðfylgjandi mynd má sjá meðalþróun staðgreiðsluskyldra tekna milli maímánaða og fjölda þeirra sem tölurnar eiga við. Tekjur eru flokkaðar í bil sem hvert um sig er 50 þúsund krónur á mánuði. Ekki eru sýndar upplýsingar um þá sem hafa lægri tekjur en 100 þúsund krónur á mánuði árið 2008. Ýmislegt vekur athygli á þessari mynd. Þeir sem höfðu tekjur undir 200 þúsund krónum í maí í fyrra eru nú að meðaltali með verulega minni tekjur en þá. Hér skiptir máli að margir í allra neðstu tekjubilunum hafa verið með tekjur af hlutastörfum sem þeir hafa ekki lengur, t.d. námsmenn, en einnig að hér eru væntanlega margir sem hafa orðið atvinnulausir og þiggja atvinnuleysisbætur eða dregið hefur úr vinnutíma hjá. Þeir sem voru með tekjur á bilinu 200-250 þúsund krónur á mánuði eru eini hópurinn sem hefur enn sömu tekjur og í fyrra. Fyrir þá sem voru með tekjur yfir 250 þúsund krónum á mánuði í fyrra hafa tekjur lækkað og eftir því meira sem tekjurnar voru hærri þá. Þeir 4.500 sem voru með tekjur yfir 1 milljón á mánuði í fyrra (og sem búið er að skila staðgreiðslu fyrir nú og hafa einhverjar tekjur) eru nú með 25% minni tekjur en þeir voru með í fyrra. Þeir 500 sem voru með tekjur yfir 2 milljónir í fyrra eru nú með helming þeirrar upphæðar að meðaltali.
Ef horft er á ráðstöfunartekjur í stað tekna kemur í ljós að þær hafa ekki breyst að krónutölu milli ára fyrir hópinn sem er með frá 200 þúsund króna mánaðartekjur upp í 450 þúsund króna tekjur. Það stafar af mikilli hækkun persónuafsláttar milli ára sem vó upp hækkað skatthlutfall. Þar fyrir ofan hafa ráðstöfunartekjur lækkað meira en tekjurnar sjálfar.