Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja funda á Íslandi
Össur Skarphéðinsson stýrði í dag árlegum fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, sem haldinn var hér á landi þar sem Ísland fer nú með formennsku í samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, svokölluðu NB8. Fór utanríkisráðherra yfir stöðuna í íslenskum stjórnmálum, gerði grein fyrir umræðunni um Icesave-málið á Alþingi og útskýrði fyrirvarana sem fjórir flokkar í fjárlaganefnd Alþingis hefðu komið sér saman um.
Ráðherrarnir beindu sjónum sínum m.a að orku- og umhverfismálum, einkum í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Danmörku sem fram fer í desember. Stoltenberg-skýrslan um öryggismál á Norðurslóðum var til umræðu, svo og málefni Norðurslóða. Þá var ástandið á alþjóðavettvangi, m.a. Afganistan, Pakistan, Íran, rætt, samskiptin við Rússland, ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi, svo og málefni Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu en Litháen mun fara með formennsku hennar á næsta ári. Umsókn Íslands að Evrópusambandinu var einnig rædd og Svíar, sem fara nú með formennsku í ESB, kynntu helstu áherslumál sín.
Ráðherrarnir sem sóttu fundinn eru Carl Bildt, Svíþjóð, Per Stig Møller, Danmörku, Urmas Paet, Eistlandi, Alexander Stubb, Finnlandi, Maris Riekstins, Lettlandi, Vygaudas Usackas, Litháen, og Elisabeth Walaas, aðstoðar-utanríkisráðherra Noregs.