Góð reynsla Norðmanna af sjálfvirkum hraðamyndavélum
Fulltrúar hvers lands gerðu einnig grein fyrir áföngum í umferðaröryggismálum landa sinna. John-Arild Jenssen og Marte Lillehagen frá Noregi sögðu frá góðri reynslu Norðmanna af notkun sjálfvirkra hraðamyndavéla. Hefur á allmörgum stöðum verið komið upp myndavélapörum sem mæla meðalhraða bíla milli tveggja staða. Með því er unnt að hafa eftirlit með akstri á tilteknum vegarköflum og beita þá viðurlögum sem brjóta hraðamörk.
Þá ræddu Finnarnir Eeva-Liisa Haapanniemi og Leif Beilingson um notkun tækninýjunga sem dregið geta úr umferðarslysum. Eru það meðal annars stöðugleikastýring í bílum sem tekur ráðin af ökumanni ef of hratt er farið og bíl tekur að skrika og sjálfvirk hemlun ökutækja sem verður ef það nálgast um of næsta ökutæki fyrir framan.
Birna Hreiðarsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, greindi meðal annars frá drögum að frumvarpi til nýrra umferðarlaga og vék þeim ákvæðum laganna sem snúast um takmörkun á akstri ungra ökumanna um helgar, hækkun ökuleyfisaldurs í 18 ár og lækkun leyfðs áfengismagns í blóði ökumanna úr 0,5 prómill í 0,2.
Á fundinum fóru einnig umræður um fjölmörg önnur atriði sem unnið er að og snerta umferðaröryggi og unga ökumenn. Fundir sem þessir eru haldnir árlega og næsti á að fara fram í Stokkhólmi að ári.
Norrænir sérfræðingar ræddu umferðaröryggismál á fundi í samgönguráðuneytinu. Frá vinstri: Eeva-Liisa Haapanniemi, Leif Beilingson, Marte Lillehagen, John-Arild Jenssen, Birna Hreiðarsdóttir, Ragnhildur Hjaltadóttir, Lars Darin, Joen Kellerberg og Svana Margrét Davíðsdóttir. |