Lokasprettur á Hólmahálsi
Lokasprettur við nýjan kafla á Norðfjarðarvegi um Hólmaháls stendur nú yfir en verklok eru samkvæmt áætlun í byrjun október. Nýi vegurinn verður 5,1 km að lengd og liggur talsvert lægra í hálsinum en núverandi vegur.
Kristján L. Möller samgönguráðherra var á ferð á framkvæmdasvæðinu í gær og ræddi við starfsmenn Suðurverks. Samið var um verkið í febrúar 2008 og var bauð Suðurverk lægra af tveimur bjóðendum. Stutt er í að umferð verði hleypt á fyrsta kafla nýja vegarins, um eins km kafla Reyðarfjarðarmegin.
Verið er að ljúka skeringum og efnisvinnslu á ysta hluta vegarins og er langt komið að aka neðra burðarlagi í veginn. Efnið úr skeringum er að mestu notað í burðarlög vegarins. Gert er ráð fyrir að efri burðarlög verði lögð í næsta mánuði og að verkið verði langt komið í október en verklok áttu samkvæmt áætlun að vera í byrjun október. Suðurverk hefur bætt við starfsmönnum í verkið síðustu daga.
Starfsmenn Suðurverks kynntu samgönguráðherra stöðuna í verkinu. Frá vinstri: Sieclo Knezevic, Þórhallur Gestsson, Kristján L. Möller og Erlingur Jónsson eru hér á framkvæmdasvæðinu í gær. |