Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2009 Innviðaráðuneytið

Reglugerðardrög um flugvernd til umsagnar

Unnið er nú að breytingu á reglugerð um flugvernd nr. 361/2005 með síðari breytingum sem gera þarf vegna innleiðingar tveggja reglugerða Evrópusambandsins um flugvernd. Þeir sem óska geta sent umsagnir sínar á netfangið [email protected]. eigi síðar en 7. september.


A. Innleiðingarreglugerð vegna regluggerða (EB) nr. 820/2008 og 300/2008

Ráðuneytið hefur haft til skoðunar breytingar á reglugerð um flugvernd nr. 361/2005 með síðari breytingum vegna innleiðingar tveggja reglugerða Evrópusambandsins um flugvernd þ.e.:

1.     Reglugerð framkvæmdastjórnar (EB) nr. 820/2008 frá 8. ágúst 2008 um ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 37, dags. 9. júlí 2009, bls. 249-263, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins nr. 67/2009 frá 29. maí 2009.

2.      Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 300/2008 frá 11. mars 2008 um sameiginlegar reglur um flugvernd í almenningsflugi og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 2320/2002, birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 37, dags. 9. júlí 2009, bls. 264-276, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins nr. 69/2009 frá 29. maí 2009.

Reglugerð (EB) nr. 820/2008 afnemur reglugerð (EB) nr. 622/2003. Meirihluti efnis reglugerðar 662/2003 ásamt breytingum hefur ekki verið birtur nema fyrir þeim aðilum sem ætlað var að framfylgja henni, þ.e. viðkomandi starfsmönnum flugvalla. Nú hefur þessu verið breytt og hefur reglugerð 820/2008 að geyma allar þær reglur sem féllu undir reglugerð 622/2003 sem á að birta en sá hluti sem skal vera leynilegur er nú efni ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar nr. 4333/2008. Reglugerð 820/2008 hefur því ekki í för með sér neinar breytingar á þeim reglum sem þegar voru í gildi.

Reglugerð nr. 622/2003 var innleidd í íslenskan rétt með reglugerð um flugvernd nr. 361/2005 ásamt síðari breytingum. Til að fella úr gildi þann hluta reglugerðar nr. 361/2005 sem varðar reglugerð nr. 622/2003 og þær breytingar sem á henni hafa verið gerðar þá fella reglugerðardrögin úr gildi fylgiskjöl III- VI og IX-XXI við reglugerð um flugvernd nr. 361/2005 ásamt síðari breytingum.

Reglugerð (EB) nr. 300/2008 er ætlað að fella úr gildi reglugerð (EB) nr. 2320/2002 sem einnig var innleidd í íslenskan rétt með reglugerð nr. 361/2005. Markmið reglugerðarinnar er að mæla fyrir um kröfur um flugvernd, bæði á flugvöllum, í loftförum og öðrum húsakynnum / aðstöðu sem fylgir flugi. Reglugerðin tekur til flugvalla, flugrekenda og allra aðila með flugverndartengda starfsemi bæði innan flugvallar og utan. Þá tekur reglugerðin til eftirlitsaðila með flugvernd í ríkjunum og af hálfu EC og ESA. Með reglugerðinni eru sett samræmd ákvæði sem taka á aðferðarfræði og nálgun flugverndarráðstafana í löndum ESB og EFTA til verndar flugi og flugtengdri starfsemi gegn ógn eða ólögmætum afskiptum, bæði hvað varðar regluverk og eftirlit. Aðeins lítill hluti af reglugerð nr. 300/2008 hefur tekið gildi (greinar 4(2), 4(3), 4(4), 8, 11(2), 2. málsl. 15(1), 17, 19 og 22). Aðrar greinar reglugerðarinnar taka gildi þegar innleiðingarreglur hennar taka gildi en þó ekki síðar en 29. apríl 2010. Í ljósi þess var ákveðið að fella ekki úr gildi reglugerð nr. 2320/2002 hér á landi fyrr en innleiðingarreglur reglugerðar 300/2008 verða innleiddar hér. Enda er reglugerð (EB) nr. 820/2008 sett með vísan til reglugerðar nr. 2320/2002.

Það var hins vegar nauðsynlegt að endurskoða meginmál reglugerðar nr. 361/2005 með hliðsjón af reglugerð (EB) nr. 300/2008. Ákveðið var að bíða með almenna hreinsun á meginmálinu þar til innleiðingarreglur reglugerðar nr. 300/2008 verða innleiddar hér. Hér á eftir verður gert grein fyrir þeim breytingum á reglugerð nr. 361/2005 sem lagðar eru til í reglugerðardrögunum:

Nauðsynlegt var að breyta 2. gr. reglugerðarinnar um gildissvið til samræmis við gildissvið 2. gr. reglugerðar nr. 300/2008 þó með þeim takmörkunum sem aðlögunartexti í ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 61/2004 í fylgiskjali I. mælir fyrir um.

Ákvæði 4. gr. reglugerðarinnar var gert skýrara og breytt til samræmis við breytingar á 2. gr. Þá var tekið inn efni 5. gr. svo hægt væri að nýta þá grein undir ákvæði varðandi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).

Þar sem í reglugerðinni var hvergi minnst á heimild Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til að framkvæma flugverndareftirlit hér á landi var talið nauðsynlegt að bæta inn ákvæði um það í 5. gr. til samræmis við það sem segir í 15. gr. reglugerðar nr. 300/2008.

Ákvæði 13. gr. um heimildir til að sækja um samþykki hefur verið breytt á þann hátt að nú er FMS heimilt að krefjast þess að umræddir aðilar sæki um samþykki vegna flugverndar en ekki öfugt. Það var litið svo á að það væri eðlilegra að FMS hefði ákvörðunarvald um það hvaða aðilar þyrftu að sækja um samþykki vegna flugverndar. Þá var orðalagið í upptalningu lagað lítillega.

Þar sem að það liggur þegar fyrir að það er FMS sem samþykkir flugverndar- og þjálfunaráætlun þá var 1. mgr. 16. gr. breytt til samræmis við það.

Ákvæði 3. mgr. 23. gr. var lagfært þar sem ranglega var vísað í upplýsingar skv. 3. mgr.

Ákvæði 26. gr. var breytt á þann hátt að kveðið var á um það hvert ætti að beina kæru.

Samkævmt 5. gr. reglugerðar nr. 300/2008/EB er það lagt á hendur hvers ríkis að ákveða hvernig kostnaðarskiptingu á milli ríkis, flugvallaryfirvalda, flugrekenda, annarra aðila sem málið varðar og neytenda er háttað.  Ýmsar ráðstafanir vegna flugverndar hafa þegar verið gerðar og grunnkostnaður því þegar fallinn til.  Ljóst er hins vegar að kostnaður sem til fellur umfram það vegna innleiðingar þeirra gerða sem hér um ræðir getur verið nokkur.  Erfitt er að segja til um það með nokkurri vissu hversu mikill hann komi til með að vera. Aukinn kostnaður mun fyrst og fremst felast í kaupum nýrra tækja, þjálfun mannskapar við að nota þau auk úttekta, eftirlits, samningu leiðbeiningarefnis, handbókar og verklags svo eitthvað sé nefnt. Hugsanlegt er að breyta verði húsnæði á fluvöllum til að koma til móts við ákvæði reglugerðarinnar.  

__________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

 

B.  Ný reglugerð vegna sérstakrar birtingar ákvarðana framkvæmdastjórnarinnar sem leynt skulu fara

Í reglugerð Evrópusambandsins nr.  2320/2002 frá 16. desember 2002 um sameiginlegar reglur um flugvernd í almenningsflugi, sbr. reglugerð (EB) nr. 820/2008 hér að ofan, er að finna heimild til handa framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að taka ákvarðanir varðandi framkvæmd flugverndar og birta þær einungis þeim einstaklingum sem efni þeirra varðar starfs þeirra vegna. 

Tilgangur draga að reglugerð um ákvarðanir sem leynt skulu fara, er að setja reglur sem heimila samgönguráðherra að ákveða afbrigðilega birtingu tiltekinna fyrirmæla varðandi framkvæmd flugverndar, þ.e. einungis gagnvart þeim einstaklingum sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni þeirra. Birting fyrirmælanna mun því ekki eiga sér stað eins og hefðbundið er í Stjórnartíðindum heldur mun Flugmálastjórn Íslands verða falið að sjá til þess að birting fari fram gagnvart þeim einstaklingum eingöngu sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni fyrirmælanna.

Forsaga málsins er sú að framkvæmdastjórn ESB hefur tekið ákvörðun um framkvæmd flugverndar nr. C(2008)4333 08/VIII/2008 um viðbótaraðgerðir við innleiðingu sameiginlegra grundvallarviðmiða um flugverndarmál. Þessi ákvörðun er tekin á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 2320/2002 frá 16. desember 2002 um sameiginlegar reglur um flugvernd í almenningsflugi og reglugerðar (EB) nr. 820/2008 frá 8. ágúst 2008 um ráðstafanir til að framfylgja sameiginlegum grunnkröfum um flugvernd. Því er farin sú leið að hafa ákvörðunina leynilega með vísan til öryggissjónarmiða.

Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar var tekin inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2009 frá 29. maí 2009 (sem er óbirt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB) og er íslenska ríkið því skuldbundið að þjóðarrétti til að innleiða ákvæði hennar í íslenska reglugerð, þrátt fyrir afbrigðilegt birtingarform ef svo má segja.

Með breytingu á loftferðarlögum sem gerð var með lögum 15/2009, var sett inn ný heimild í 70. gr. d, þar sem ráðherra er heimilt að birta aðeins að hluta efni reglugerðar skv. h-lið 1. mgr. varðandi framkvæmd flugverndar, þeim einstaklingum sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni hennar.  Skylt er að efni reglugerðarinnar sem ekki er birt varði beina flugverndarhagsmuni og öryggi og leynd leiði af þjóðréttarlegum skuldbindingum á sviði flugverndar.  Þessi skilyrði eru uppfyllt hvað umrædda ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar varðar.

Ráðuneytið óskar eftir umsögn um framangreind reglugerðardrög eigi síðar en 7. september næstkomandi.

 

Drög að breytingu á reglugerð um flugvernd

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta