Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2009 Utanríkisráðuneytið

Samkomulag um alþjóðasamning um aðgerðir hafnríkja gegn ólöglegum fiskveiðum.

Samkomulag tókst í dag í Róm um nýjan alþjóðasamning um aðgerðir hafnríkja gegn ólöglegum fiskveiðum. Samningurinn felur í sér að aðildarríki hans verða skuldbundin til að loka höfnum sínum fyrir erlendum skipum sem orðið hafa uppvís að því að stunda ólöglegar fiskveiðar. Gerð samningsins er því mikilvægur áfangi í baráttunni gegn ólöglegum fiskveiðum.

Samkvæmt þjóðarétti hafa ríki fullveldi yfir höfnum sínum og ráða því almennt hvaða erlendum skipum er heimilt að koma til hafnar og njóta þjónustu þar. Markmiðið með hinum nýja alþjóðasamningi er að tryggja að aðildarríki hans muni sem hafnríki grípa til samræmdra aðgerða gagnvart skipum, er orðið hafa uppvís að því að stunda ólöglegar fiskveiðar, samkvæmt lágmarksviðmiðum sem mælt er fyrir um í samningnum.

Ísland hefur tekið virkan þátt í baráttunni gegn ólöglegum fiskveiðum og gegndi stóru hlutverki í gerð hins nýja alþjóðasamnings. Beitti Ísland sér m.a. fyrir því í samningaviðræðunum að aðgerðir hafnríkja fælu ekki aðeins í sér að banna viðkomandi skipum löndun, umskipun og vinnslu aflans, eins og upphafleg samningsdrög gerðu ráð fyrir, heldur jafnframt að synja þeim um hvers konar þjónustu í höfnum sínum, t.d. kaup á olíu og vistum. Að mati íslenskra stjórnvalda var þetta forsenda þess að samningurinn næði því markmiði sínu að koma í veg fyrir ólöglegar fiskveiðar í heiminum.

Samningaviðræðurnar, sem fóru fram á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í fjórum vikulöngum lotum, hófust sumarið 2008 og lauk sem fyrr segir í dag. Gert er ráð fyrir að samningurinn verði formlega samþykktur og lagður fram til undirritunar á aðalráðstefnu FAO í nóvember nk

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta