Ísland leiðir samningaferli um málefni hafsins
Vinnuhópur allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna kemur saman í höfustöðvum samtakanna dagana 31. ágúst til 4. september til að gera tillögur til allsherjarþingsins um aðgerðir í tengslum við stofnun reglubundins ferlis til að fylgjast með og meta ástand hafsins, þ.á m. félagslega og efnahagslega þætti. Frumkvæðið á rætur að rekja til leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg árið 2002 , en Ísland átti á sínum tíma ríkan þátt í að koma reglubundna ferlinu á dagskrá. Samkvæmt ákvörðun allsherjarþingsins var ráðist í samantekt undirbúningsskýrslu árið 2005 til að leggja mat á þekkingu sem fyrir lægi víðs vegar um heim um ástand hafsins, þ.á m. mengun, líffræðilegan fjölbreytileika, nýtingu lifandi auðlinda og áhrif loftslagsbreytinga. Skýrslan ("Assessment of Assessments") liggur nú fyrir og mun fundurinn m.a. byggja á niðurstöðum hennar.
Að tilnefningu forseta allsherjarþingsins leiða sendiherrar Íslands og Filippseyja hjá Sameinuðu þjóðunum, Dr. Gunnar Pálsson og Hilario Davide, samningaviðræðurnar.