Hoppa yfir valmynd
2. september 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Eigendastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum

Fréttatilkynning nr. 60/2009

Ríkið hefur sett sér eigendastefnu í fjármálafyrirtækjum og er henni ætlað að skýra fyrirætlanir ríkisins sem eiganda að fjármálafyrirtækjum. Þetta er í fyrsta skipti sem skýr og skrifleg eigandastefnu er sett fram af hálfu ríkisins. Ætlunin er að eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum geti orðið fyrirmynd að almennri eigandastefnu ríkisins sem unnin verði á næstu misserum og nái til allra félaga og fyrirtækja sem ríkið á hluti í.

Sérstaklega reynir á nú þegar endurreisn íslensks fjármálakerfis stendur yfir og hefur ríkið því ákveðið að setja upp sérstakt tímabundið skipulag vegna utanumhalds um eignahluti sem það kann að eignast í fjármálafyrirtækjum. Stefnan tekur mið af þessum sérstöku aðstæðum og er með henni leitast við að skapa trúverðug­leika og traust á ríkinu sem eiganda, bæði út á við gagnvart öllum almenningi, viðskiptavinum fjár­málafyrirtækja og erlendum lánadrottnum og samstarfs­aðilum, og einnig inn á við, gagnvart Alþingi, framkvæmdarvaldinu, fjármálafyrirtækjunum, starfsfólki þeirra og stjórnendum.

Stefnan skiptist í fjóra meginþætti:

  1. Markmið ríkisins með eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum.
  2. Skipulag eigandahlutverksins innan ríkisins, þ.e. ábyrgð hvers aðila og tengsl milli þeirra.
  3. Meginreglur sem ríkið setur sér sem eigandi.
  4. Kröfur og viðmið í rekstri fjármálafyrirtækja sem ríkið á hluti í.

Í kjölfar stofnunar nýju bankanna haustið 2008 með uppskiptingu eigna og skulda gömlu bank­anna hefur verið kallað eftir að ríkið setji sér sérstaka stefnu sem eigandi þeirra. Áður voru nær öll fjár­mála­fyrirtæki landsins í einkaeigu og ríkið hafði ekki tilefni til að marka sér stefnu sem eigandi að fjármálafyrirtækjum. Nú þegar ríkið á eignarhluti í nokkrum fjármála­fyrir­tækjum sem einnig eiga í samkeppni sín á milli er æskilegt og óhjákvæmilegt að hlutverk og ábyrgð ríkisins sem eiganda séu vel skilgreind sem og markmið með eignarhaldinu. Þá er mikil­vægt tryggja góða og arðbæra nýtingu þeirra miklu fjármuna sem ríkið leggur til íslenskra fjár­málastofnana.

Fjármálaráðuneytinu 2. september 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta