Fundur umhverfisráðherra með dr. Robert Costanza
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og dr. Robert Costanza visthagfræðingur áttu fund í umhverfisráðuneytinu fyrir helgi. Þau ræddu m.a. skoðanir dr. Constanza á vanköntum hagvaxtarútreikninga og hugmyndir sem uppi eru um að bæta þurfi umhverfis- og félagslegum þáttum inn í útreikninga á þjóðhagsvísum til að þeir sýna raunsanna mynd af lífskjörum þjóða.
Costanza, sem er prófessor við Vermont háskóla í Bandaríkjunum, er einn af þekktustu fræðimönnum samtímans á sviði umhverfismála. Sérgrein hans er visthagfræði (ecological economics) og er hann þekktastur fyrir rannsóknir og hugmyndir sínar um mat sitt á þeim fjölþættu verðmætum sem felast í margvíslegri þjónustu sem vistkerfi veita samfélaginu (ecosystem services). Tímamótagrein hans og félaga í tímaritinu Nature frá árinu 1997 er ein mest tilvitnaða tímaritsgrein í umhverfisfræðum undanfarin ár. Þar birtist í fyrsta skipti heildstætt verðmat á allri þeirri margvísleg þjónustu sem vistkerfi heimsins veita, annarri en þeirri sem hefðbundið er að mæla.
Slík hugmyndafræði hefur rutt sér til rúms í stefnumótum um umhverfismál og hverskonar nýtingu náttúruauðlinda undanfarin ár. Við hefðbundna ákvarðanatöku er oft einungis litið til verðmætis eins þjónustuþáttar af þeim fjöldamörgu sem viðkomandi svæði eða vistkerfi veita, svo sem timburverðætis skóga, vikjanagetu vatnsfalla eða landverðs náttúrusvæða. Hugmyndir dr. Constanza og félaga ganga hins vegar útá að mæla verðmæti allrar þeirrar fjölþættu þjónustu sem viðkomandi vistkerfi veita samfélaginu og taka síðan ákvarðanir út frá því.
Dr. Robert Costanza kom hingað til lands á vegum Háskóla Íslands. Costanza var aðalkennari við alþjóðlega sumarskólann Breaking down the barriers, sem var haldinn við Háskóla Íslands. Þá flutti Costanza opinn fyrirlestur fyrir fullu húsi í Háskóla Íslands.
Hann er jafnframt hingað kominn vegna þátttöku í íslensku rannsóknarverkefni þar sem lagt er mat á verðmæti þjónustu náttúrunnar hér á landi. Rannsóknin, sem er sú fyrsta sem unnin er á þessu sviði hér á landi, er undir stjórn Háskóla Íslands í samstarfi við Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, Reykjavíkurborg, Garðabæ og Orkuveituna. Rannsóknavettvangurinn er útivistar, skógræktar og náttúrverndarsvæðið Heiðmörk á útmörk höfuðborgarsvæðisins. Fjölmargir vísindamenn og nemar vinna þar að rannsóknum við að meta fjölþætta þjónustu vistkerfisins, svo sem veiðinni í vötnunum, drykkjarvatni borgarbúa, fjölþættrar útivistar almennings, kolefnisbindingar og viðar skógarins, ber og sveppir og miðlun í Elliðaárnar svo nokkur helstu þjónustuþættir séu nefndir. Þannig verður til mat á heildarverðmæti svæðisins fyrir samfélagið. Er þess vænst að aðferðafræði verkefnisins geti orðið leiðbeinandi fyrir slíka vinnu annarsstaðar á landinu.
Hljóðupptaka af fyrirlestri Robert Costanza, birt á vef umhverfis- og auðlindafræði Háskóla Íslands.
Glærur frá fyrirlestri Robert Costanza, birtar á vef umhverfis- og auðlindafræði Háskóla Íslands.
Tímaritið Solutions sem Robert Costanza ritstýrir með fleirum.