Eigendastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 3. september 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Ríkið hefur sett sér eigendastefnu í fjármálafyrirtækjum og er henni ætlað að skýra fyrirætlanir ríkisins sem eiganda að fjármálafyrirtækjum.
Þetta er í fyrsta skipti sem skýr og skrifleg eigandastefna er sett fram af hálfu ríkisins. Ætlunin er að eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum geti orðið fyrirmynd að almennri eigandastefnu ríkisins sem unnin verði á næstu misserum og nái til allra félaga og fyrirtækja sem ríkið á hluti í.
Sérstaklega reynir á nú þegar endurreisn íslensks fjármálakerfis stendur yfir og hefur ríkið því ákveðið að setja upp sérstakt tímabundið skipulag vegna utanumhalds um eignarhluti sem það kann að eignast í fjármálafyrirtækjum. Stefnan tekur mið af þessum sérstöku aðstæðum og er með henni leitast við að skapa trúverðugleika og traust á ríkinu sem eiganda. Slíkt traust er nauðsynlegt, bæði út á við, gagnvart almenningi, viðskiptavinum fjármálafyrirtækja og erlendum lánardrottnum og einnig inn á við, gagnvart Alþingi, framkvæmdarvaldinu, fjármálafyrirtækjunum, starfsfólki þeirra og stjórnendum.
Stefnan skiptist í fjóra meginþætti:
- Markmið ríkisins með eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum.
- Skipulag eigandahlutverksins innan ríkisins, þ.e. ábyrgð hvers aðila og tengsl milli þeirra.
- Meginreglur sem ríkið setur sér sem eigandi.
- Kröfur og viðmið í rekstri fjármálafyrirtækja sem ríkið á hluti í.
Í kjölfar stofnunar nýju bankanna haustið 2008 með uppskiptingu eigna og skulda gömlu bankanna hefur verið kallað eftir að ríkið setji sér sérstaka stefnu sem eigandi þeirra. Áður voru nær öll fjármálafyrirtæki landsins í einkaeigu og ríkið hafði ekki tilefni til að marka sér stefnu sem eigandi að fjármálafyrirtækjum. Nú þegar ríkið á eignarhluti í nokkrum fjármálafyrirtækjum sem einnig eiga í samkeppni sín á milli er æskilegt og óhjákvæmilegt að hlutverk og ábyrgð ríkisins sem eiganda séu vel skilgreind sem og markmið með eignarhaldinu. Þá er mikilvægt að tryggja góða og arðbæra nýtingu þeirra miklu fjármuna sem ríkið leggur til íslenskra fjármálastofnana.
- Eigandastefna ríksisins, fjármálafyrirtæki (PDF 92 KB)