Hoppa yfir valmynd
4. september 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármagnstekjur landsmanna eru að breytast

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 3. september 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í upplýsingum Ríkisskattstjóra vegna álagningar tekjuskatts einstaklinga kemur fram hversu miklar fjármagnstekjur einstaklingar telja fram.

Á þær er lagður sérstakur skattur, fjármagnstekjuskattur, og var hann 10% á allar tekjur árið 2008. Hann hefur nú tímabundið verið hækkaður í 15% á tekjur umfram 250.000 króna lágmark.

Fjármagnstekjur landsmanna höfðu vaxið mjög ört og náðu hámarki árið 2007 þegar framtaldar fjármagnstekjur námu 244 ma.kr. Árið eftir voru þær 194 ma.kr.

Mikil breyting hefur orðið á samsetningu framtalinna fjármagnstekna eins og sjá má af myndinni hér fyrir neðan. Árið 2007 töldu landsmenn fram 151 ma.kr. söluhagnað en í fyrra var hann 27 ma.kr. Þetta eru afleiðingar lækkandi hlutabréfaverðs og minni umsvifa í kaupum og sölu hlutabréfa. Arðgreiðslur til einstaklinga námu 44 ma.kr. árið 2007 og þær höfðu vaxið í 52 ma.kr. árið eftir. Leigutekjur námu 5 ma.kr. í fyrra og eru minnsti flokkur fjármagnstekna.

Önnur veigamikil breyting milli ára var sú að samkvæmt framtölunum voru vaxtatekjur landsmanna tæpir 45 ma.kr. árið 2007 en árið eftir voru þær 109 ma.kr. Á þessu eru nokkrar skýringar. Sú helsta er sú að nú var í fyrsta sinn lögð sú skylda á fjármálastofnanir að veita skattyfirvöldum upplýsingar um innstæður og vaxtatekjur. Þetta hafði þær afleiðingar að í stað 265 ma.kr. bankainnstæðna í árslok 2007 voru nú taldir fram 635 ma.kr. Það sýnir að umtalsverð vanhöld hafa verið á framtöldum innstæðum og vaxtatekjum enda taldi Seðlabankinn að innstæður heimilanna sem hefðu átt að koma fram á framtölum þeirra í innlendum innlánsstofnunum hefðu numið 508 ma.kr. í árslok 2007. Ári seinna var upphæðin 698 ma.kr. og í mun betra og rökréttara samræmi við framtaldar innstæður. Má því ætla að vaxtatekjur heimilanna hafi numið um 67 ma.kr. árið 2007, sem er 50% hærri fjárhæð en sú sem kom fram í framtölunum. Er þá reiknað með að vaxtatekjur af innstæðum í erlendum bönkum séu rétt taldar fram bæði árin. Innstæður heimilanna og vaxtatekjur af þeim hafa meðal annars vaxið af því að eftir bankahrunið voru miklir fjármunir sem áður voru í peningamarkaðssjóðum færðir á bankareikninga. Vaxtatekjur hafa því einnig vaxið af þeim sökum.

Fjármagnstekjur eftir tegundum

Ríkissjóður hefur innheimt fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum á undanförnum árum jafnvel þótt innstæður og vaxtatekjur hafi ekki verið taldar fram. Hins vegar eru vaxtabætur tekju- og eignatengdar og því má ætla að nokkur fjöldi framteljenda hafi fengið slíkar bætur sem þeir áttu ekki rétt á. Vaxtatekjur teljast hins vegar ekki með fjármagnstekjum við útreikning barnabóta. Mestri skekkju valda rangt fram taldar vaxtatekjur á útreikningi bóta úr almannatryggingakerfinu og á dvalarkostnaði á öldrunarstofnunum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta