Vöruskiptin í ágúst 2009
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 3. september 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar nam innflutningur vöru 31,5 ma.kr. (fob) í ágúst.
Það er talsvert minna en í júlí en svipað og í maí og júní. Verðmæti útfluttrar vöru nam 44,1 ma.kr. eða 2,4 ma.kr. meiru en í júlí. Afgangur á vöruskiptum í ágúst nam því 12,6 ma.kr.
Vísbendingar eru um að innflutningur olíu og eldsneytis hafi dregist saman í ágúst, sem og innflutningur ökutækja til einkanota. Innflutningur til neyslu er að mestu óbreyttur á milli mánaða, svo og annar innflutningur.
Útflutningur sjávarafurða er áfram með besta móti eins og á undanförnum mánuðum en verð íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt hefur staðið nokkuð í stað undanfarið. Þá er útflutningur áls einnig með besta móti og er nokkur aukning í honum á milli mánaða en heimsmarkaðsverðs áls hefur hækkað umtalsvert að undanförnu.