Yfirlýsing vegna skýrslu vistheimilanefndar
Yfirlýsing félags- og tryggingamálaráðherra
vegna skýrslu vistheimilanefndar
„Það er ótvíræð niðurstaða skýrslunnar að opinbert eftirlit með starfsemi vistheimilanna hafi í öllum tilvikum brugðist. Þessi staðreynd hefur valdið fjölda fólks miklum sársauka og á því er rétt og skylt að biðjast afsökunar“ segir Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, vegna nýútkominnar skýrslu vistheimilanefndar. „Við verðum að læra af þessari sáru reynslu og láta verkin tala. Það er óhjákvæmilegt að koma á algerlega sjálfstæðu eftirliti með velferðarþjónustu á vegum hins opinbera og skilja slíkt eftirlit með öllu frá þeim stofnunum sem taka ákvarðanir um hvar og hvernig þjónusta er veitt, svo ekki sé minnst á þær stofnanir sem þjónustuna veita. Þannig styrkjum við eftirlitið og tryggjum algert hlutleysi þess. Við skuldum því fólki sem á um sárt að binda vegna mistaka í fortíðinni að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að slíkir atburðir hendi aldrei aftur.“
Reykjavík, 8. september 2009