Iðnaðarráðherra á ferð um Suðaustur- og Austurland.
Heimsóknin hófst á Höfn þar sem Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri tók á móti ráðherra. Fyrsti viðkomustaður var Nýheimar, klasi nýsköpunar, sprotafyrirtækja, mennta og menningar undir einu þaki. Í Nýheimum var litið inn í Háskólasetrið auk útibús Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þaðan lá leiðin í Matarsmiðjuna sem er sérstaklega sett upp til að styðja við frumkvöðla og fyrirtæki sem vilja hefja virðisaukandi smáframleiðslu matvæla úr íslensku hráefni. Hjá Skinney Þinganesi var humarvinnsla skoðuð auk annarra framleiðslulína fyrirtækisins. Heimsókninni til Hornafjarðar lauk með hádegisverði í Pakkhúsinu þar sem starfsemi Nýheima var skýrð sérstaklega auk þess sem hin mikla vinna við mótun framtíðarsýnar og stefnu fyrir sveitarfélagið var kynnt. Þar gafst gott tækifæri til að ræða við fulltrúa stofnana sveitarfélagsins.
Frá Höfn var haldið til Djúpavogs þar sem Bj. Hafþór Guðmundsson sveitarstjóri tók á móti ráðherra. Fulltrúar sveitarstjórnar skýrðu áætlanir um uppbyggingu tengda vatnsútflutningi og sóknarmöguleika í ferðaþjónustu, m.a. verkefnið Birds.is og skútuhöfn í Gleðivík þar sem nýta má fyrirliggjandi atvinnuhúsnæði.
Á Breiðdalsvík var Gamla kaupfélagið heimsótt í fylgd Páls Baldurssonar sveitarstjóra. Þetta elsta hús Breiðdalsvíkur er að öðlast nýtt líf sem menningarsetur, kaffistofa, jarðfræðasetur og málvísindasetur. Frá Gamla kaupfélaginu var haldið í fyrrverandi fiskvinnslu þar sem nú er verið að leggja lokahönd á fullkomna matvælavinnslu til framleiðslu og útflutnings á fullunnum réttum. Heimsókn til Breiðdalsvíkur lauk svo með umræðum um framtíðina á Hótel Bláfelli.
Gunnar Ásgeirsson, stjórnarformaður Skinneyjar Þinganess, sýnir myndarlegan nýveiddan humar sem verið var að pakka.
Iðnaðarráðherra ásamt Rósu Björk Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra Ríkis Vatnajökuls og Hjalta Þór Vignissyni bæjarstjóra.
Páll Baldursson, sveitarstjóri Breiðdalshrepps og iðnaðarráðherra blaða í minnisbókum hins virta breska jarðfræðings dr. Georg Walker, sem sagði að Ísland hefði kennt sér jarðfræði. Öll hans rannsóknargögn frá Íslandsferðum eru nú varðveitt í jarðfræðisetrinu í Gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík.
Bragðað á nýreyktum makríl í Matarsmiðjunni á Höfn.