Hoppa yfir valmynd
14. september 2009 Dómsmálaráðuneytið

Árétting vegna fréttaflutnings um málsmeðferð umsókna um embætti saksóknara hjá embætti sérstaks saksóknara

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið fjallar nú um umsóknir um embætti þriggja saksóknara við embætti sérstaks saksóknara, sem eiga að rannsaka mál sem tengjast hruni stóru viðskiptabankanna þriggja. Embætti þessi voru auglýst laus til umsóknar þann 7. ágúst sl. en umsóknarfrestur rann út þann 26. ágúst sl. Í auglýsingu ráðuneytisins kom fram að ráðuneytið myndi leita umsagna um umsóknirnar frá embætti sérstaks saksóknara og settum ríkissaksóknara í málum sem til rannsóknar eru hjá embætti sérstaks saksóknara.

Ráðuneytið sendi samkvæmt þessu umsóknir ellefu umsækjenda til umsagnar sérstaks saksóknara og setts ríkissaksóknara í málum sem til rannsóknar eru hjá embætti sérstaks saksóknara. Óskað var eftir því að þessir aðilar færu yfir umsóknirnar, þar með talið að kanna hvort umsækjendur uppfylltu starfsgengisskilyrði, veittu umsögn um hæfi hvers og eins þeirra og bentu á hæfa einstaklinga til starfans, eða eftir atvikum einstaklinga sem kalla ætti til viðtals, ef um slíkt yrði að ræða. Ráðuneytinu barst sameiginleg umsögn framangreindra aðila þann 7. september sl. Þar var bent á ákveðna umsækjendur sem talið var að boða ætti í viðtal.

Í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar var þeim umsækjendum sem ekki var mælt með að boðaðir yrðu í viðtal, gefinn kostur á að koma á framfæri við ráðuneytið athugasemdum sínum við þau atriði í umsögninni er vörðuðu þá sérstaklega. Með því að kynna umsækjendum þessi atriði og afla viðhorfa umsækjendanna til þeirra leitaðist ráðuneytið við að upplýsa með sem vönduðustum hætti og í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga þau atriði er ákvörðun ráðuneytisins um að boða umsækjendur í viðtal kynni að byggjast á.

Það skal áréttað að á þessu stigi liggur ekki fyrir mat eða afstaða ráðuneytisins til þess sem fram kemur í umsögn sérstaks saksóknara og setts ríkissaksóknara eða til þess hvaða aðilar verða boðaðir til viðtals enda er frestur umsækjenda til þess að skila inn athugasemdum ekki liðinn.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum