Ný drög að frumvarpi um rannsóknir samgönguslysa til umsagnar
Frumvarpið felur í sér sameiningu laga um rannsókn sjóslysa, laga um rannsókn flugslysa og laga um rannsóknarnefnd umferðarslysa, í heildstæða löggjöf um slysarannsóknir í samgöngum. Gert er ráð fyrir að nefndirnar verði sameinaðar í eina fimm manna rannsóknarnefnd. Gert er ráð fyrir því að hin nýja nefnd, rannsóknarnefnd samgönguslysa, heyri undir ráðherra samgöngumála.
Markmið frumvarpsins er að auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir á Íslandi. Einn megintilgangurinn með sameiningu rannsóknarnefndanna í eina nefnd er að leitast við að ná fram hagræðingu og efla um leið rannsókn samgönguslysa og styrkja starfsmenn annars mjög fámennra nefnda í einstökum slysaflokkum svo þeir hafi stuðning og styrk hver af öðrum við umfangsmiklar rannsóknir. Þá er ráðgert að mögulegt verði að fela nefndinni aukin verkefni er lúta að skráningu og greiningu samgönguslysa. Skýrslum rannsóknarnefndarinnar um rannsókn einstakra slysa skal ekki beitt sem sönnunargögnum í sakamálum og skal ekki leitast við að skipta sök eða ábyrgð.
Í júní 2007 kom samgönguráðherra á fót starfshópi með þátttöku forstöðumanna rannsóknarnefndanna til að vinna að þessu verkefni og var Andri Árnason hæstaréttarlögmaður ráðinn til að vinna með starfshópnum og að semja drög að frumvarpi. Starfshópurinn leitaði víða fanga í upplýsingaöflun og var m.a. gerð greining á fyrirkomulagi samgöngurannsókna í nokkrum löndum, þar á meðal á Norðurlöndunum, Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada.
Í upphafi árs 2009 voru frumvarpsdrögin endurskoðuð í samgönguráðuneytinu. Nokkuð var bætt við af ákvæðum að höfðu tilliti til þjóðréttarlegra skuldbindinga og uppsetningu og kaflaskiptingu eldri draga frumvarpsins breytt með það fyrir augum að gefa frumvarpinu heildstæðara yfirbragð. Var frumvarpið sent til umsagnar hagsmunaaðila seint í febrúar sama ár. Komu fram fjölmargar góðar athugasemdir sem tekið var tillit til og frumvarpinu breytt í samræmi við þær. Er frumvarpið eins og það er lagt fram hér afrakstur þeirrar vinnu og umsagna sem lýst hefur verið.
- Drög að frumvarpi til laga um rannsókn samgönguslysa (DOC)
- Drög að frumvarpi til laga um rannsókn samgönguslysa (PDF)
Helstu breytingar á frumvarpi til laga um rannsókn samgönguslysa í framhaldi af umsögnum hagsmunaaðila
1. Breyting hefur orðið á númerum greina frumvarpsins þar sem bætt hefur verið við ákvæðum, þau færð til, felld út og önnur sameinuð.
2. Teknar hafa verið inn fjölmargar orðalagsathugasemdir.
3. Bætt hefur verið við orðskýringar orðunum: flugumferðaratvik, stjórnandi rannsóknar og trúnaðarfulltrúi.
4. Athugasemdir bárust vegna notkunar orðsins rannsóknarstjóri í frumvarpinu og bent á að í flestum tilvikum væri í raun átt við stjórnanda rannsóknar. Hefur í flestum tilvikum nú rannsóknarstjóra verið breytt í stjórnanda rannsóknar og bæði orðin skilgreind sérstaklega í orðskýringum svo vafi leiki ekki á merkingu þeirra í frumvarpinu.
5. Ákvæði 6. og 7. gr. hafa verið sameinuð og er nú að finna í 8. gr.
6. Í umsögnum um frumvarpið kom fram sú tillaga að betra væri að greina á milli ólíkra slysasviða. Hefur slíkt verið gert m.a. með því að skipta upp ákvæði um lögsögu rannsóknarnefndarinnar (4.-6. gr.) sem og um tilkynningarskyldu til nefndarinnar (14.-16. gr.).
7. Í 9. gr. frumvarpsins (áður 8. gr.) voru í fyrri drögum tilgreindir tveir möguleikar vegna fyrirkomulags sjálfrar nefndarinnar. Var þar annars vegar um að ræða möguleika A sem gerði ráð fyrir fimm manna nefnd skipaða til fimm ára í senn auk fjögurra varamanna. Hins vegar var um að ræða möguleika B sem gerði ráð fyrir fimm manna nefnd skipaða til fimm ára í senn ásamt sérstökum faghóp tólf sérfræðinga sem ráðherra skipar sérstaklega til ráðgjafar til fimm ára í senn.
Fjölmargar ábendingar bárust vegna þessara valmöguleika og með hliðsjón af þeim hefur möguleiki A verið talin farsælasta lausnin þar sem ekki þykir þörf á svo mörgum ráðherraskipuðum sérfræðingum þegar það er haft í huga að í síðustu málsgrein 23. gr. kemur fram að rannsóknarnefndin geti leitað aðstoðar rannsóknarstofnana, innlendra eða erlendra ásamt því að kalla til starfa með nefndinni sérfræðinga á tilteknum sviðum, telji hún tilefni til.
8. 19. gr. (áður 17. gr.) hefur verið breytt þannig að nú gildir það sama um loftför, skip og ökutæki hvað varðar heimildir til að hreyfa við þeim á vettvangi slyss eða atviks. Einnig hefur ákvæði verið bætt við sem sérstaklega tekur fram að lögregla fari með stjórn á vetttvangi slyss eða atviks.
9. 25. og 29. gr (áður 23. gr. og 27. gr.) hefur verið breytt til að gæta samræmis milli slysaflokka.
10. Við ákvæði 36. gr. (áður 34. gr.) hefur verið bætt heimild fyrir ráðherra að fela rannsóknarnefndinni að rannsaka nánar tiltekið slys eða atvik.
11. Ákvæði 37. og 38. gr. frumvarpsins um aðstoð í kjölfar samgönguslysa hafa verið felldar út. Er þetta gert þar sem nú þegar er kveðið á í lögum um áfallahjálp og aðstoð við þolendur slysa sem og skyldu sveitarfélaga til að gera viðbragðsáætlanir vegna þessa. Er þau ákvæði að finna í 15. og 16. gr. laga nr. 82/2008 um almannavarnir.
Umsagnir skulu berast samgönguráðuneytinu í síðasta lagi miðvikudaginn 23. september næstkomandi og sendar á netfangið [email protected].