Ráðherranefnd um efnahagsmál
Forsætisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun, þriðjudaginn 22. september, skipan sérstakrar ráðherranefndar um efnahagsmál. Í henni eru forsætisráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra. Aðrir ráðherrar sitja fundi nefndarinnar í samræmi við umfjöllunarefni. Gert er ráð fyrir að ráðherranefndin fjalli meðal annars reglulega um atvinnumál og stöðu heimilanna.
Ráðherranefnd um efnahagsmál er ætlað að samræma stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og hafa eftirlit með framkvæmd efnahagsstefnunnar á einstökum sviðum. Meðal annarra verkefna er samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, framtíðarskipulag peningamála og samræming í fjármálum hins opinbera til lengri og skemmri tíma. Einnig mun hún verða stefnumótandi og hafa forystu um samskipti við aðila vinnumarkaðarins, uppbyggingu fjármálakerfisins og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi með tilliti til efnahagsmála.
Reykjavík 22. september 2009