Sagex Petroleum afturkallar sérleyfisumsókn sína til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu.
Fréttatilkynning nr 11/2009
Útboð á sérleyfum til rannsókna og vinnslu kolvetnis fór fram á tímabilinu 22. janúar til 15. maí sl. Á útboðstímabilinu bárust tvær umsóknir, annars vegar frá Aker Exploration og hins vegar frá Sagex Petroleum í samvinnu við Lindir Exploration.
Þann 16. júlí sl. dró Aker Exploration umsókn sína til baka sökum breyttrar stefnumörkunar fyrirtækisins og samruna við annað fyrirtæki. Í gær, 22. september, barst Orkustofnun formlegt erindi frá Sagex Petroleum og Lindir Exploration um afturköllun umsóknar um sérleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu. Í erindinu er vísað til erfiðleika tengda því að verða fyrirsjáanlega eina fyritækið við rannsóknir á svæðinu og gagnrýni á fyrirkomulag skattamála.
Í samskiptum Orkustofnunar við þau olíuleitarfyrirtæki sem sýndu útboðinu mikinn áhuga, en sóttu hins vegar ekki um sérleyfi, hefur komið fram að helstu ástæður fyrir því að þau sátu hjá að þessu sinni voru ýmist bágt efnahagsástand á útboðstímabilinu með tilheyrandi skorti á nýju fjármagni, mikil áhætta sem fylgir því að hefja rannsóknir á nýju svæði eins og Drekasvæðið er og lágt olíuverð. Haft verður samband við þau olíufélög sem hafa sýnt svæðinu áhuga auk þeirra sem afturkallað hafa sérleyfisumsóknir sínar til að fá skýrari mynd af ástæðum þess að þau luku ekki umsóknarferlinu.
Þar sem ljóst er að ekki verður gefið út sérleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu að þessu sinni munu stjórnvöld meta hvenær næsta útboð hefst og ákveða umgjörð þess í ljósi reynslunnar.
Á Drekasvæðinu eru nú þegar í gildi tvö leitarleyfi til allt að þriggja ára, annars vegar leyfi sem var veitt 5. júní sl. til bandaríska fyrirtækisins Ion GX Technology og hins vegar framlengdi CGGVeritas leyfið sem Wavefield Inseis var veitt 13. júní 2008, en CGGVeritast tók yfir starfsemi Wavefield Inseis á árinu. Ef mælingar heppnast þá munu gögnin verða afar góð viðbót við auðlindamat svæðisins og til kynningar á því.
Sú vinna sem lögð hefur verið í undirbúning og framkvæmd útboðsins mun nýtast í framhaldinu enda búið að setja rammann um olíuleit við Ísland til framtíðar. Jafnframt má benda á að í kjölfar fyrsta útboðs Íslendinga hafa Norðmenn boðað rannsóknir sín megin á Jan Mayen hryggnum en þar á Ísland einnig hagsmuna að gæta samkvæmt Jan Mayen samningnum sem undirritaður var 1981.
Reykjavík 23. september 2009