Hoppa yfir valmynd
23. september 2009 Forsætisráðuneytið

Sérfræðingur Alþjóðaefnahagsráðsins fjallar um stöðu Íslands

Irene Mia, hagfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Alþjóðaefnahagsráðinu (World Economic Forum) og einn skýrsluhöfunda The Global Competitiveness Report 2009-2010, fjallar um samkeppnishæfni Íslands á morgunfundi sem haldinn verður föstudaginn 25. september næstkomandi undir yfirskriftinni Endurreisn: Sóknarfæri og samkeppnishæfni. 20/20 Sóknaráætlun, sem er á vegum ríkisstjórnarinnar, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóli Íslands standa að fundinum.

Morgunfundurinn fylgir úr hlaði vinnu starfshóps á vegum 20/20 Sóknaráætlunar sem ætlað er að skoða sérstaklega sóknarfæri Íslands og koma með tillögur sem miða að því að samkeppnishæfni landsins aukist markvisst fram til ársins 2020.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ávarpar fundinn og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir frá 20/20 Sóknaráætlun. Irene Mia, hagfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Alþjóðaefnahagsráðinu, talar um samkeppnishæfni Íslands út frá samkeppnisvísitölu Alþjóðaefnahagsráðsins. Einnig fjallar Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, um leiðir til að efla samkeppnishæfnina og Hörður Arnarson, forstjóri Sjóvár, ræðir um áskorun atvinnulífsins.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur m.a. fram að efnt verði til víðtæks samráðs undir forystu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar. Markmiðið er að kalla fram sameiginlega framtíðarsýn og að setja eins og kostur er áætlunum í samgöngumálum, fjarskiptamálum, ferðamálum og byggðamálum sameiginleg markmið til lengri tíma. Hið sama gildir um áætlanir er snerta eflingu sveitarstjórnarstigsins, vaxtarsamninga og framkvæmdir á vegum hins opinbera svo og stefnumótun samtaka og hagsmunaaðila.

Morgunfundurinn verður haldinn 25. september kl. 9:00 - 11:30 á Hilton Reykjavík Nordica. Þátttökugjald er 1100 kr. og skráning er á netfanginu [email protected].

Dagskrá

  • Ávarp - Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra
  • 20/20 Sóknaráætlun - Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra
  • Assessing Iceland's competitiveness in times of crisis: the findings of the Global Competitiveness Index 2009-2010 - Irene Mia hagfræðingur og framkvæmdastjóri WEF
  • Hvernig mætti efla samkeppnishæfnina? - Runólfur Smári Steinþórsson prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands
  • Áskorun atvinnulífsins - Hörður Arnarson forstjóri Sjóvár

Nánari upplýsingar veita: Rósa Signý Gísladóttir, markaðsstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, s. 522 9000/867 1809 og Einar Karl Haraldsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins, s. 840 6888.

Reykjavík 23. september 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta