Utanríkisráðherra á leiðtogafundi S.þ. um loftslagsmál
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tók í gær þátt í leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem haldinn var að frumkvæði Ban Ki- Moon framkvæmdastjóra S.þ. í New York. Í ræðu sinni lagði utanríkisráðherra áherslu á að bindandi samkomulag um takmörkun gróðurhúsalofttegunda næðist á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember og lýsti áhyggjum af því hversu hægt virtist miða í átt að nýjum loftslagssamningi.
Ráðherra gerði að umtalsefni að þjóðir heims gerðu átak í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa en árangur Íslendinga gæti þar orðið öðrum mikilvæg fyrirmynd. Ísland hefði áður fyrr verið háð nýtingu olíu og kola til raforkuframleiðslu og kyndingar en þessir þættir væru nú alfarið knúnir hreinni orku, jarðhita og vatnsafli. Til þess að ná mætti pólitískum árangri á heimsvísu yrði að sýna hvernig hægt sé að breyta raforkukerfum og nýta auðlindir skynsamlega. Hátt í hundrað þjóðir eiga möguleika á að nýta jarðhita en langt er í land á að möguleikarnir séu nægilega vel nýttir.
Fundurinn hófst með ávarpi Barack Obama forseta Bandaríkjanna en síðan fór starf fundarins fram í nokkrum málstofum þar sem yfirskriftin var: Hvernig hægt er að takast á við loftslagsbreytingar án þess að hindra hagvöxt.