Hoppa yfir valmynd
24. september 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra flutti ávarp á táknmáli

Konur verða að koma að ákvörðunum og skipulagi í loftslagsmálum til jafns á við karla, sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra í ávarpi í Háskóla Íslands í gær. Hún flutti ávarpið á táknmáli og er þetta i fyrsta sinn sem íslenskur ráðherra flytur ávarp á táknmáli svo vitað sé.

Ávarp umhverfisráðherra um loftslagsmál og jafnrétti.

Góðir gestir.

Loftslagsmál eru mál málanna í hinu alþjóðlega samfélagi. Í desember hittast fulltrúar ríkja heims í Kaupmannahöfn og ætla að ná samkomulagi um framtíðarmarkmið og aðgerðir til að stemma stigu við loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Mörgum á Íslandi virðast slíkar breytingar kannski ekki mikil vá, eða aðkallandi viðfangsefni. Það á að hlýna og varla er það af hinu verra fyrir þjóð sem býr við svalt loftslag, eða hvað? Við höfum líka um nóg annað að hugsa, að taka til eftir bankahrunið í fyrra og koma atvinnulífinu og heimilunum á réttan kjöl. Ekki rétt?

Nei, það er ekki rétt. Við getum ekki sett framtíðina á frest þótt við séum enn að gera upp fjármálalegt og hugmyndafræðilegt þrotabú fyrri stefnu. Við þurfum einmitt að setja framtíðina í öndvegi. Íslendingar hvorki megum né getum skorist úr leik í loftslagsmálum. Í þeim liggja tækifæri fyrir okkur, bæði efnahagsleg og ekki síður í að byggja upp jákvæða ímynd af okkur í samfélagi þjóðanna - fyrir utan það auðvitað að taka þátt í að bjarga heiminum.

Það er enginn vafi lengur á því að loftslag jarðar er að breytast. Þær breytingar eru sjáanlegar og mælanlegar hér á landi eins og annars staðar. Í sumum öðrum ríkjum eru alvarlegar afleiðingar nú þegar komnar fram. Þurrkar og hitabylgjur í Ástralíu hafa valdið mesta vatnsskorti og mannskæðustu gróðureldum í sögu landsins. Íbúar sumra láglendra hitabeltiseyja eru þegar byrjaðir að huga að brottflutningi íbúa vegna hækkandi sjávarborðs. Breytingar á loftslaginu til þessa eru þó smávægilegar miðað við það sem vísindamenn spá fyrir næstu öld, ef ekkert er að gert. Þær gætu valdið mestu röskun á náttúrufari og lífsskilyrðum sem mannkynið hefur séð frá upphafi siðmenningar.

Sýnilegustu breytingarnar hér á landi yrðu líklega þær að jöklar landsins gætu því sem næst horfið á næstu 100-200 árum. Ósýnilegar breytingar í hafinu ættu þó kannski að valda okkur enn meiri áhyggjum. Hlýnun sjávar mun valda breytingum á fiskgegnd. Súrnun hafsins vegna aukinnar upptöku koltvíoxíðs úr andrúmsloftinu getur valdið ófyrirsjáanlegum breytingum á lífinu í hafinu til lengri tíma. Við Íslendingar verðum ekki fyrstu fórnarlömb loftslagsbreytinga af mannavöldum, en enginn ætti að halda að málið komi okkur ekki við.

Þessi ríkisstjórn og þessi umhverfisráðherra stefna að því að Ísland setji metnaðarfull áform í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og grípi sem fyrst til raunhæfra aðgerða. Þar getum við gert margt, ekki síst á sviði samgangna. Íslendingar eiga einhvern eyðslufrekasta bílaflota í heimi og við getum minnkað losun mikið með því að kaupa sparneytnari bíla og með því að ganga, hjóla og nota almenningssamgöngur í stað einkabílsins, einkum í styttri ferðum.

Loftslagsmál eru ekki bara mál stjórnvalda, heldur alls almennings. Kvenna jafnt sem karla. Jafnréttissjónarmið skipta miklu máli í loftslagsumræðunni og í umhverfismálum yfirleitt. Því hefur meira að segja verið haldið fram að fátt skili meiri árangri í að bæta umhverfið og koma á sjálfbærri þróun og að auka rétt og völd kvenna.

Hvernig má það vera? Ef við skoðum málið hnattrænt, þá býr meirihluti mannkyns í þróunarríkjum og þar eru vandamálin mest hvað varðar ofnýtingu auðlinda, mengun og fátækt. Vandinn bitnar oft harðast á konum, sem sjá um að afla vatns og eldiviðar og sinna börnum og brýnustu þörfum fjölskyldunnar. Staða kvenna er hins vegar oft fremur bág og menntun lítil, þannig að þær skortir bæði þekkingu og völd til að breyta því sem þarf. Þar sem fátækt er mest og staða kvenna verst, er líka oftast mest fólksfjölgun og mestur barnadauði og mest hætta á auðlindaþurrð og hungursneyð. Aukin menntun og réttur kvenna leiðir nær alls staðar til færri barneigna og minni barnadauða og betri lífsskilyrða. Fræðsla til kvenna leiðir til betra hreinlætis, en milljónir manna deyja eða bíða alvarlegan skaða á ári hverju vegna sjúkdóma sem berast með óhreinu vatni eða öðrum leiðum, sem hægt er að koma í veg fyrir með einföldum hætti. Ójafnrétti er alvarlegt heilsufarsvandamál og alvarlegt umhverfisvandamál.

Ójafnrétti er líka hluti af loftslagsvandanum. Jafnvel þótt okkur takist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda meira og hraðar en bjartsýnustu menn vona, þá verður óhjákvæmilega veruleg hlýnun og miklar breytingar á lífsskilyrðum samfara henni. Það þarf að undirbúa fólk fyrir þær breytingar og styrkja innviði fátækustu samfélaganna til að auka getu þeirra til að takast á við breyttar aðstæður. Aðlögun að loftslagsbreytingum er þegar orðinn stór þáttur í þróunaraðstoð og viðleitni fátækra ríkja til að bæta lífskjör þegna sinna. (Dæmi) Það er lykilatriði ef slíkt á að skila árangri að konur komi sem mest að ákvarðanatöku, skipulagningu og framkvæmd slíkra aðgerða.

Konur þurfa líka að koma í ríkari mæli að því að ráðast að rót vandans. Við þurfum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda svo að breytingar á loftslaginu fari ekki á versta veg og verði óviðráðanlegar. Aukin notkun á endurnýjanlegri orku í þróunarríkjunum myndi víða draga úr heilsuspillandi mengun, sem bitnar helst á konum og létta þeim vinnu þar sem eldiviði er safnað til matargerðar. Í Kenýa tók kona að nafni Wangari Maathai sig til og skipulagði trjáplöntun í heimalandi sínu, sem eflir jarðveg og matvælaframleiðslu og bindur kolefni úr andrúmsloftinu. Hún gerði það fyrst og fremst með því að virkja konur og samtakamátt þeirra. Maathai fékk friðarverðlaun Nóbels fyrir starf sitt, sem hefur orðið mörgum fyrirmynd í starfi að umhverfisvernd og jafnréttismálum.

Mér hefur orðið tíðrætt um ástandið í þróunarríkjunum, því þar er vandinn mestur og jafnrétti kynjanna oft skammt á veg komið og mestur ávinningur fenginn með því að efla rétt og mátt kvenna. En við megum alveg horfa hingað heim til að skoða tengsl jafnréttismála og loftslagsbreytinga. Ég nefndi hér fyrr að við Íslendingar eigum útblástursfrekasta bílaflota Evrópu þótt víðar væri leitað. Ég vil ekki gera lítið úr því að víða þurfa menn stóra og öfluga bíla til að komast leiðar sinnar, ekki síst í dreifðum byggðum. Ég ætla heldur ekki halda því fram sem oft er gantast með að stórir bílar séu einhvers konar uppbót eða framlenging á sjálfsmynd eiganda síns, sem þá er oftast karlkyns. En ég vil samt velta þeirri spurningu upp hvort bílaflotinn væri kannski aðeins loftslagsvænni ef konur fengju meira ráðið um bílakaup. Við þurfum ekki ofurjeppa til að kaupa í matinn í borginni og við þurfum ekki bensínhák í daglegum ferðum í vinnu eða skóla. Ef við eigum að ná líklegum skuldbindingum okkar við að minnka losun til 2020 þurfum við að skipta yfir í sparneytnari bíla. Það er hagfræði hinnar hagsýnu húsmóður; nefnd sérfræðinga undir formennsku Brynhildar Davíðsdóttur hagfræðings komst að því að engin aðgerð er eins hagkvæm og að skipta hraðar yfir í sparneytnari bíla. Það er í henni fólginn beinn ávinningur – í krónum fyrir bíleigendur og dýrkmætum gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Ég skora á konur – já og karla líka – til að skoða sparneytnasta kostinn næst þegar skipta þarf um bíl, nú eða kaupa slíkan í fyrsta sinn. Og ekki síður til að huga að því að ganga meira og hjóla styttri leiðir; það er heilsubót jafnt sem loftslagsbót.

Konur þurfa líka að koma meira að ákvarðanatöku í atvinnumálum og öðrum sviðum, sem hafa mikil áhrif í sambandi við loftslagsbreytingar. Íslendingar eru vissulega meðal fremstu þjóða hvað varðar hlutfall kvenna á Alþingi, en hér sem annars staðar eru konur í minnihluta í valdastöðum í stjórnkerfinu og þó sérstaklega í atvinnulífinu. Við þurfum að hlúa að mörgum og fjölbreyttum sprotum í því uppbyggingarstarfi sem er framundan í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Við eigum ekki að setja öll egg í sömu körfu. Það gafst ekki vel að leggja ofuráherslu á ofurvöxt í fjármálakerfinu. Það er heldur ekki gott að leggja ofuráherslu á eina grein til að byggja upp á rústum þess, eins og álframleiðslu. Við Íslendingar erum þegar heimsmeistarar í álframleiðslu á höfðatölu – þar kemst enginn með tærnar sem við höfum hælana – og álverð sveiflast oft verulega og getur tekið skarpar dýfur eins og fjármálavísitölur. Þær raddir heyrast nú að við verðum að byggja álver eða aðra mengandi stóriðju baki brotnu til að taka við af bönkunum við að skaffa. Ég vara við slíku og bið konur sérstaklega að ljá hugmyndum um fjölbreyttari atvinnuuppbyggingu lið. Sumir vilja bæta um betur og fara með betlistaf til Kaupmannahafnar til að biðja um nýjar undanþágur fyrir losun frá stóriðju. Ég hafna slíku. Við eigum að vinda ofan af sérákvæðum og leggja á hilluna hugmyndir um ný slík. Það verður engin stemmning fyrir undanþágur í Kaupmannahöfn.

Góðir áheyrendur,

Loftslagsmál eru mál málanna í umræðunni í dag. Jafnréttismál eru alltaf mikilvæg, hvort sem er í ríkjum þar sem þau eru skammt á veg komin, eða þar sem lengra hefur miðað. Jafnrétti er alls ekki sjálfsagður hlutur og þarf stöðuga baráttu og áminningu til að jafna stöðu kynjanna og verja það sem unnist hefur. Jafnréttismál eru samtvinnuð flestum þeim efnum sem við er að fást í samfélaginu og loftslagsmál eru þar ekki undanskilin.

Takk fyrir.

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta