Endurreisn: Sóknarfæri og samkeppnishæfni
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fylgdi úr hlaði vinnu starfshóps á vegum 20/20 Sóknaráætlunar þegar hún setti morgunfund síðastliðinn föstudag undir yfirskriftinni Endurreisn: Sóknarfæri og samkeppnishæfni.
Í ræðu sinni fjallaði forsætisráðherra meðal annars um að bæta þurfi samkeppnishæfni Íslands. „Efnahagsáætlunin til 2013 miðar að því en til lengri tíma litið getur umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu skipt sköpum. Staða Íslands mun að mínum dómi styrkjast strax við að verða umsóknarríki að Evrópusambandinu í byrjun næsta árs.
Ein leiðin til að til þessa að efla okkur í glímunni sem framundan er felst í því að stjórnvöld, fulltrúar samtaka atvinnulífsins og almenningur í landinu átti sig vel á því sem ræður samkeppnishæfni Íslands til lengri tíma.
Ég legg áherslu á í þessu sambandi að sjávarútvegs- landbúnaðar- og iðnaðarráðuneyti verði sameinuð á næsta ári í eitt atvinnuvegaráðuneyti sem tryggi heildarsýn á atvinnuþróun í landinu.
Brýna nauðsyn ber til að samræma markmið stjórnvalda, hagsmunafélaga og landshlutasamtaka í sameiginlegri sóknaráætlun til næstu tíu ára. Slíkri sóknaráætlun þurfum við svo að fylgja fast eftir þannig að Ísland komist sem fyrst aftur í hóp 10 efstu ríkja í lífsgæðavísitölu Sameinuðu þjóðanna og skori hátt á lista Alþjóðaefnahagsráðsins um samkeppnishæfni þjóða.“
Starfshópi 20/20 Sóknaráætlunarinnar er ætlað að skoða sérstaklega sóknarfæri Íslands og koma með tillögur sem miða að því að samkeppnishæfni landsins aukist markvisst fram til ársins 2020.
Reykjavík 28. september 2009