Álfheiður Ingadóttir nýr heilbrigðisráðherra
Álfheiður Ingadóttir er nýr heilbrigðisráðherra. Tók hún við embætti á ríkisráðsfundi í morgun.
Álfheiður Ingadóttir tekur við embætti heilbrigðisráðherra af Ögmundi Jónassyni, sem sagði af sér því embætti í gær. Álheiður var kjörin á Alþingi fyrir Vinstri hreyfinguna grænt framboð í kosningum 2007 í Reykjavíkurkjördæmi suður og var endurkjörin í kosningum í vor fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður. Áður sat Álfheiður sem varaþingmaður Alþýðubandalagsins og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.
Álfheiður sat í heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis 2007, heilbrigðisnefnd 2007-2009, iðnaðarnefnd 2007-, og allsherjarnefnd 2009. Hún var kjörin formaður viðskiptanefndar 2009, sat í kjörbréfanefnd 2009, og var í efnahags- og skattanefnd 2009. Heilbrigðisráðherra sat í Íslandsdeild Norðurlandaráðs á árinu 2009.
Álfheiður Ingadóttir varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1971, lauk B.Sc.-próf í líffræði frá Háskóla Íslands 1975 og stundaði nám í þýsku og fjölmiðlun við Freie Universität í Vestur-Berlín 1976-1977.
Sjá nánari upplýsingar um heilbrigðisráðherra.
Mynd: Ögmundur afhendir Álfheiði lyklavöld að heilbrigðisráðuneytinu.