Hoppa yfir valmynd
1. október 2009 Forsætisráðuneytið

Nýtt skipurit í forsætisráðuneytinu

Samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 177/2007, með síðari breytingum, breytist starfsemi forsætisráðuneytisins nokkuð í dag, 1. október 2009, meðal annars með flutningi verkefna og nýju skipuriti.

Aukið forystu-, verkstjórnar- og samræmingarhlutverk

Forsætisráðuneyti fær aukið forystu-, verkstjórnar- og samræmingarhlutverk með breyttu skipulagi og með stýringu samráðsnefnda ráðherra. Ennfremur hefur verið settur á fót fastur samstarfsvettvangur stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins og önnur lykilhagsmunasamtök um þróun íslensks samfélags. Ráðuneytið mun stýra stefnumótun á sviði stjórnsýsluumbóta og –þróunar, þróunar lýðræðis og stjórnskipunar, samkeppnishæfni Íslands og jafnréttis kynjanna. Ennfremur verður lagasamræming innan Stjórnarráðsins efld undir forystu þess. Til að ofangreindar breytingar verði markvissar er starfsemi ráðuneytisins endurskipulögð með það að markmiði að halda utan um umbótaverkefni annars vegar og verkefnisstjórn um samfélagsþróun hins vegar. Skrifstofur ráðuneytisins verða fimm; skrifstofa yfirstjórnar, skrifstofa samfélagsþróunar, skrifstofa löggjafarmála, skrifstofa stjórnsýsluþróunar og rekstrar- og fjármálaskrifstofa.

Fjórar nýjar ráðherranefndir

Settar verða á fót fjórar ráðherranefndir sem starfa á vettvangi forsætisráðuneytisins sem hluti af skipuriti þess. Sett hefur verið á fót ráðherranefnd efnahagsmála til að tryggja eftirfylgni með verkefnum sem heyra undir önnur ráðuneyti á sviði efnahagsmála og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Önnur ráðherranefnd er um jafnréttismál undir forystu forsætisráðherra en jafnréttismál almennt verða áfram í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Þriðja ráðherranefndin fjallar um Evrópumál og loks verður sett á fót ráðherranefnd um ríkisfjármál á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir að hún starfi undir sameiginlegri forystu forsætisráðherra og fjármálaráðherra.

Þá verður fastur samstarfsvettvangur stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins og önnur lykilhagsmunasamtök um þróun íslensks samfélags (Stöðugleikasáttmálinn) á vegum skrifstofu samfélagsmála og þar verður einnig stýrt starfi sóknaráætlunar fyrir alla landshluta 20/20.

Horft til Norðurlanda

Við mótun hins nýja skipurits forsætisráðuneytisins var m.a. höfð hliðsjón af skipulagi forsætisráðuneyta í öðrum löndum og þá ekki síst í Danmörku. Meðal einkenna forsætisráðuneyta annars staðar á Norðurlöndum er að þar eru fáir eða engir málefnaflokkar eða verkefni, heldur gegna slík ráðuneyti fyrst og fremst samræmingarhlutverki og verkstjórn. Sérfræðingar á sviði stjórnsýslu hafa gagnrýnt skort á stefnumótun í íslenskri stjórnsýslu og með nýju skipulagi er stefnt að því að efla almenna stefnumótun innan stjórnsýslu hér á landi.

Mikilvægt er jafnframt að unnið sé markvisst að því að endurskoða vinnubrögð innan Stjórnarráðsins og stjórnsýslunnar með það að markmiði að auka skilvirkni og gagnsæi og vönduð vinnubrögð í hvívetna. Flutningur hefðbundinna stjórnsýsluverkefna til annarra ráðuneyta skýrist meðal annars af þessum markmiðum. Jafnframt verður þá svigrúm fyrir ríkisstjórn að fela forsætisráðuneytinu samræmingu varðandi ýmis sérstök forgangsmál.

Skipurit forsætisráðuneytisins

Reykjavík 1. október 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta