Hoppa yfir valmynd
2. október 2009 Forsætisráðuneytið

Fækkun ráðuneyta úr 12 í 9

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá 10. maí sl. eru boðaðar víðtækar breytingar á verkefnum ráðuneyta og aðrar umbætur í ríkisrekstri. Í ljósi umtalsverðra breytinga á íslensku samfélagi á undanförnum árum og vegna breyttrar stöðu ríkissjóðs í kjölfar bankahruns og efnahagssamdráttar er tímabært að endurskoða skipulag ríkisrekstrar í heild sinni. Meðal annars er nauðsynlegt að meta hvort og þá hvernig unnt er að hagræða og draga úr kostnaði en um leið auka skilvirkni í ríkisrekstri, einfalda stjórnsýslu og bæta þá þjónustu sem sérstök áhersla verður lögð á. Þetta kallar m.a. á breytta verkaskiptingu milli ráðuneyta og stofnana en einnig þarf að huga að því að auka samstarf þannig að ríkið allt, bæði einstök ráðuneyti og stofnanir, vinni saman sem ein heild. Byggja þarf upp öflugar einingar á öllum málefnasviðum ríkisins og vinna þannig á skilvirkan hátt að þeim verkefnum sem löggjafinn felur framkvæmdarvaldinu að sinna á hverjum tíma.

Breytingar á Stjórnarráði Íslands sem öðluðust gildi um mánaðamótin september/október eru fyrsti þátturinn í þeim stjórnkerfisumbótum sem ráðast þarf í á næstu mánuðum og árum. Þær snúast um tilfærslu verkefna milli ráðuneyta og voru nauðsynlegar lagabreytingar samþykktar á Alþingi með lögum nr. 98/2009, um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Ekki þurfti þó lagabreytingar vegna allra verkefna sem færast til.

Áfram verður unnið að umtalsverðum breytingum á Stjórnarráðinu og ráðuneytum verður fækkað úr 12 í 9. Þegar í lok þessa árs verða lögð fyrir Alþingi frumvörp sem kveða á um sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Í tengslum við það verður endurskoðuð verkaskipting milli nýs atvinnuvegaráðuneytis og umhverfisráðuneytis með stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Í framhaldi af því verður unnið að því að félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti sameinist í velferðarráðuneyti og dóms- og mannréttindaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sameinist í innanríkisráðuneyti. Sú endurskoðun sem boðuð hefur verið á stofnunum og verkefnum ráðuneyta verður unnin með hliðsjón af þessum fyrirhuguðu breytingum.

Eftirfarandi breytingar urðu 1. október 2009:

Efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Nafn viðskiptaráðuneytisins breyttist í efnahags- og viðskiptaráðuneyti og gerð er umtalsverð breyting á verkefnum þess og skipulagi. Til ráðuneytisins fluttist forræði efnahagsmála sem var bæði í forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Í því felst að málefni Seðlabanka Íslands flytjast til ráðuneytisins þannig að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands heyra nú undir sama ráðuneyti. Starfsemi efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytisins fluttist til ráðuneytisins. Sett hefur verið á fót ráðherranefnd um efnahagsmál, en í henni eiga sæti forsætisráðherra sem veitir nefndinni forystu, fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra. Þá fluttist til ráðuneytisins hluti af efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, en í fjármálaráðuneytinu verða áfram verkefni sem unnin hafa verið á efnahagsskrifstofu ráðuneytisins og tengjast fjárlagagerð og stjórn ríkisfjármála, svo sem tekjuáætlun fjárlaga og mat á tekjuáhrifum skattbreytinga. Málefni Hagstofu Íslands fluttust frá forsætisráðuneytinu til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og hjá Hagstofu Íslands verður sett á fót sjálfstæð rannsóknareining sem fylgist með afkomu þjóðarbúsins, semur þjóðhagsspár og birtir opinberlega. Sú eining verður til með flutningi verkefna frá fjármálaráðuneyti til Hagstofunnar. Með þessu fyrirkomulagi er lögð áhersla mikilvægi þess að efnahagsspá innan ríkisins sé sjálfstæð og trúverðug. Þá fluttust til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins málefni er varða bókhald, endurskoðendur og ársreikninga, en þau tengjast mjög félagarétti sem nú þegar er á forræði viðskiptaráðuneytisins. Þá eru færð frá ráðuneytinu til utanríkisráðuneytisins verkefni sem tengjast umsýslu alþjóðlegra viðskiptasamninga og til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins ýmis lög er varða verkefni á vegum Neytendastofu og talsmanns neytenda.

Forsætisráðuneyti. Lögð er aukin áhersla á forystu og verkstjórn forsætisráðuneytisins innan Stjórnarráðsins. Í samræmi við það hefur skipulag ráðuneytisins verið endurskoðað. Auk verkefna á sviði efnahagsmála, sem áður eru nefnd, fluttist frá ráðuneytinu til utanríkisráðuneytisins utanumhald vegna norrænnar samvinnu og til mennta- og menningarmálaráðuneytis safn Halldórs Laxness að Gljúfrasteini, Þjóðmenningarhúsið, Stafkirkjan í Heimaey, Þjóðveldisbærinn og kirkja Þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal og Þjóðhátíðargjöf Norðmanna. Þá hafa verið settar á fót þrjár ráðherranefndir undir forystu forsætisráðherra, þ.e. um jafnréttismál, efnahagsmál, og Evrópumál og sett verður á fót ráðherranefnd um ríkisfjármál á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Nefndunum er ætlað að samræma stefnu ríkisstjórnarinnar á þessum málefnasviðum.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti. Nafni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er breytt í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og til ráðuneytisins flutt nokkur verkefni. Framkvæmd sveitarstjórnarkosninga, sem verið hefur í samgönguráðuneyti, fluttist til ráðuneytisins og er þá öll framkvæmd kosninga komin á einn stað innan stjórnarráðsins. Málefni sem varða mansal fluttust frá félags- og tryggingamálaráðuneyti. Verkefni sem lúta að fasteignamati og fasteignaskráningu fluttust frá fjármálaráðuneyti, þ.m.t. Fasteignaskrá Íslands og yfirfasteignamatsnefnd, og í ráðuneytið fluttust verkefni á sviði neytendamála sem verið hafa í viðskiptaráðuneytinu. Frá ráðuneytinu færðist hins vegar forræði yfir lögum um prentrétt yfir í mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Fjármálaráðuneyti. Til fjármálaráðuneytisins fluttist eignarhald ríkisins í opinberum hlutafélögum sem verið hefur á forræði annarra ráðuneyta. Um er að ræða eftirfarandi félög: RÚV, Íslandspóst, Farice, Landskerfi bókasafna, Austurhöfn og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Markmiðið með tilfærslunni er tryggja samræmda stefnu varðandi eignarhluti ríkisins í hlutafélögum og auka trúverðugleika á hlutverki ríkisins sem eiganda. Þrátt fyrir þessa formbreytingu bera fagráðuneytin áfram ábyrgð á þeim málefnasviðum sem fyrirtækin starfa á og setja reglur um markaðina líkt og fyrr. Fjármálaráðuneytið mun setja eigandastefnu gagnvart öllum fyrirtækjum sem ríkið á hluti í líkt og þegar hefur verið gert vegna fjármálafyrirtækja í eigu þess. Eins og fyrr greinir færðust verkefni á sviði efnahagsmála, bókhalds, endurskoðenda og ársreikninga frá fjármálaráðuneytinu til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins annars vegar og Hagstofu Íslands hins vegar. Auk þessa færðust málefni Fasteignaskrár Íslands og yfirfasteignamatsnefndar til dómsmála- og mannréttindaráðuneytis. Gerðar hafa verið breytingar á skipulagi fjármálaráðuneytisins vegna þessara breytinga.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. Nafni menntamálaráðuneytisins er breytt í mennta- og menningarmálaráðuneyti og eins og áður sagði flutt til þess verkefni á sviði menningarmála frá forsætisráðuneytinu og lög um prentrétt frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og er þá samankomin á einn stað öll löggjöf um fjölmiðla.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Nafni samgönguráðuneytisins er breytt í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti til þess að leggja áherslu á mikilvægi sveitarstjórnarmála sem fluttust til ráðuneytisins í byrjun árs 2008.

Reykjavík 2. október 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta