Ferð Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um Vesturland til að kynna sér starfsemi Vesturlandsskóga
Þann 10. september sl. fór Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ásamt fylgdarliði í kynnisferð um hluta Borgarfjarðarsýslu, þar sem hann hitti skógarbændur og kynnti sér starfsemi Vesturlandsskóga, sem er eitt af fimm landshlutaverkefnum (LHV) í skógrækt. Eftirfarandi staðir voru heimsóttir:
Ytri-Skeljabrekka: Hópurinn hittist að Ytri-Skeljabrekku í Andakíl, þar sem Örn Hjörleifsson, fyrrum sjómaður á Hellissandi og Ingigerður kona hans, hófu skógrækt í samstarfi við Vesturlandsskóga árið 2001 á 39 ha spildu, sem nú hefur að mestu verið gróðursett í.
Hvanneyri: Haldið var á skrifstofu Vesturlandsskóga á Hvanneyri og drukkið þar kaffi með starfsmönnum fleiri stofnana, sem tengdar eru landbúnaði. Þar fengu þeir Magnús B. Jónsson og Jón Guðbjörnsson, sem sitja í stjórn Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi, m.a. tækifæri til að þýfga ráðherra sem þingmann kjördæmisins um aðkomu ríkisins að áframhaldandi uppbyggingu dvalarheimilisins í Borgarbyggð.
Tungufell í Lundarreykjadal: Að loknu kaffi á Hvanneyri var haldið til Hjördísar Geirdal og Þórarins Svavarssonar á Tungufelli. Þess má geta, að Þórarinn er í stjórn FsV og einnig í stjórn Landssambands skógareigenda. Aðstæður að Tungufelli eru að því leyti sérstakar, að þar hefur verið samið um ræktun skógar á 396 ha. Þar reyndi því á það ákvæði Viðauka II við lög um mat á umhverfisáhrifum, þar sem segir: “...að sé skógrækt fyrirhuguð á samfelldu landi, sem er meira en 200 ha að flatarmáli, sé sú skógrækt tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar, sem taki síðan ákvörðun um, hvort mat á umhverfisáhrifum sé nauðsynlegt. Þessi skógrækt var tilkynnt, eins og lög gera ráð fyrir, á undirbúningsstigi til Skipulagsstofnunar.” Allir umsagnaraðilar sögðu á sínum tíma, að ekki væri ástæða til mats á umhverfisáhrifum, nema Fornminjavernd sem krafðist fornminjaskráningar. Var skráningin unnin á kostnað landeigenda. Skógræktin á Tungufelli hófst árið 2001. Þar er nú að mestu búið að gróðursetja í umrætt land, en þó talsverðar eyður á milli sem sleppt var í fyrstu umferð og sett verður í síðar.
Oddsstaðir: Næst var haldið að Oddsstöðum og heimsótt þar hjónin Sigurður Oddur Ragnarsson og Guðbjörg Ólafsdóttir. Á Oddsstöðum er tvíbýli og nær skógræktin til beggja býlanna á samtals 156 ha. Þau hjónin búa á Oddsstöðum I, en Kristján Davíðsson bjó til skamms tíma að Oddsstöðum II, en nú hafa dóttir hans og tengdasonur formlega tekið við skógræktinni á Oddsstöðum II, en sáu áður um hana fyrir hans hönd. Á Oddsstöðum er gamall birkilundur frá tíð Kofoed Hansen, skógræktarstjóra og var sáð til hans um 1930. Þar var síðar, eða á 6. áratug síðustu aldar, farið að gróðursetja greni o.fl. tegundir inn í birkilundinn. Þannig má segja, að á Oddsstöðum sé gömul hefð fyrir skógrækt. Á Oddsstöðum er auk skógræktar stundaður sauðfjárbúskapur og ferðaþjónusta tengd hestaferðum.
Steindórsstaðir: Þar voru heimsótt hjónin Guðfinna Guðnadóttir og Þórarinn Skúlason. Gengið var um gróðursetningar frá því fyrir rúmum 10 árum, en skógrækt hófst á Steindórsstöðum árið 1996 í samstarfi við Skógrækt ríksins. Sama ár hófst skógrækt á aðliggjandi landi Vilmundarstaða og er nú allvíðlendur nýskógur orðinn mannhæðarhár eða meira á þessum tveimur jörðum. Á Steindórsstöðum stóð Ingibjörg heitin Pálsdóttir, móðursystir Guðfinnu húsfreyju, reyndar fyrir skógrækt í rúmlega 2ja ha girðingu og mun hafa hafist þar handa í kringum 1950. Árið 2002 var þinglýst samningi milli Vesturlandsskóga og eigenda Steindórsstaða um skógrækt á 27 ha spildu, sem liggur að mun víðlendara skógræktarsvæði í landi Vilmundarstaða. Nú hafa einnig verið gerðir samningar um skógrækt á jörðunum Rauðsgili, Búrfelli og hluta Auðsstaða, svo horfur eru á að nokkuð samfelldur skógur vaxi upp í fjallshlíðinni frá Rauðsgilinu og á nokkurra km löngum kafla fram eftir dalnum. Að lokinni skógarskoðun hjá Guðfinnu og Þórarni buðu þau gestum uppá léttar veitingar, þar sem ostar voru í aðalhlutverki, enda helsta búgreinin að Steindórsstöðum mjólkurframleiðsla.
Skorradalur: Loks var skoðuð grisjun og vinnsla viðar hjá Skógrækt ríkisins í Skorradal. Svo virðist sem grisjun sé að verða arðbær framkvæmd og gefur það mjög góðar vonir um framtíð skógræktar á Íslandi sem atvinnugreinar.
Hvergi á Vesturlandi er skógrækt í samstarfi við Vesturlandsskóga stunduð jafnvíða á tiltölulega stórum samfelldum svæðum eins og í Reykholtsdal og í Hálsasveit, sem og í Lundareykjadal. Reyndar er þéttleiki skógræktarjarða næstmestur í Dalabyggð, en hún varð í upphafi starfsemi Vesturlandsskóga, vegna vöntunar á atvinnutækifærum almennt og þess vegna veikrar byggðarlegrar stöðu, valin sem vettvangur sérstaks kynningarátaks á þeim möguleikum, sem bændum gefast í samstarfi við Vesturlandsskóga.
Samtals hafa verið gerðir samningar við liðlega eitt hundrað bændur á Vesturlandi um skógrækt á rúmlega 9.000 ha lands. Árleg gróðursetning náði mest um 900.000 plöntum árið 2007, en þá var orðið ljóst, að fjárveitingar myndu ekki vaxa í þeim takti sem upphaflegar áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Í raun hefur jafnt og þétt orðið minnkun á fjárveitingum frá árinu 2004. Því voru seglin rifuð 2008 til að mæta framúrkeyrslu umfram fjárheimildir á næstu árum á undan. Gróðursetning árið 2008 nam því aðeins um 320.000 plöntum, en er lítillega umfram það á þessu ári.
Að auki er stunduð skjólbeltarækt á talsvert á annað hundrað jörðum. Þess má geta til samanburðar, að á starfssvæði Vesturlandsskóga eru samtals liðlega eittþúsund lögbýli og eru þá svonefnd eyðibýli talin með.
Þegar Vesturlandsskógum voru sett markmið í upphafi, var tekið mið af ákvæði laga um, að ræktaður skuli skógur á 5% láglendis í landshlutanum. Er þá skilgreining láglendis miðuð við land undir 400 m hæð yfir sjávarmáli. Því er markmið Vesturlandsskóga að ræktaður verði skógur á 35.000 ha lands. Með sama áframhaldi og verið hefur að meðaltali undanfarin 5 ár, tæki það meira en 100 ár að ná þessu markmiði.