Hoppa yfir valmynd
5. október 2009 Forsætisráðuneytið

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin áformar að flytja 184 mál á 138. löggjafarþinginu sem nú er nýhafið. Þetta má lesa úr þingmálaskrá sem lögð var fram um leið og forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína. Flest mál verða flutt af hálfu dómsmála- og mannréttindaráðherra, 25 talsins.

Forsætisráðherra hyggst meðal annars flytja frumvarp til laga um stjórnlagaþing, frumvarp til laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á vist- og meðferðarheimilum fyrir börn og tillögu til þingsályktunar um sóknaráætlun fyrir Ísland fram til 2020.

Dómsmála- og mannréttindaráðherra ætlar m.a. að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998 og frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.

Félags- og tryggingamálaráðherra hyggst m.a. leggja fram frumvarp til laga um aðgerðir til að taka á skuldavanda heimilanna og frumvarp til laga um almannatryggingar.

Fjármálaráðherra flytur m.a. frumvarp til laga um stuðning vegna nýsköpunarfyrirtækja.

Iðnaðarráðherra gerir ráð fyrir að leggja m.a. fram frumvarp til laga um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytur m.a. frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006. Með vísan til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar mun ráðherra leggja fram á Alþingi frumvörp er lúta að brýnum breytingum á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.

Mennta- og menningarmálaráðherra flytur m.a. frumvarp til laga um fjölmiðla sem felur í sér grunnlöggjöf um starfsemi fjölmiðla auk þess sem lögð er til innleiðing á tilskipun um hljóð og myndmiðlunarþjónustu auk breytinga á lögum um prentrétt.

Umhverfisráðherra hyggst m.a. flytja frumvarp til skipulagslaga sem felur í sér heildarendurskoðun á skipulagsþætti skipulags- og byggingarlaga.

Utanríkisráðherra flytur frumvarp til laga um Íslandsstofu og tillögu til þingsályktunar um fullgildingu Evrópusamnings um aðgerðir gegn mansali.

Efnahags- og viðskiptaráðherra flytur m.a. frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 svo nokkuð sé nefnt.

Í þingmálaskránni er getið um þau lagafrumvörp sem unnið er að í einstökum ráðuneytum. Flutt kunna að verða fleiri frumvörp og atvik geta hindrað flutning einstakra frumvarpa. Jafnframt eru taldar upp tillögur til þingsályktunar sem ætlunin er að flytja.

Reykjavík 5. október 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta