Hoppa yfir valmynd
5. október 2009 Forsætisráðuneytið

Þjóðhagsáætlun fyrir árið 2010

Hagvöxtur á ný eftir árið 2010

Atvinnuleysi eykst á næsta ári en minnkar um helming á fjórum árum

Kaupmáttur árið 2011 verður álíka og árið 2001

Seðlabanki og Fjármálaeftirlit hugsanlega sameinuð á ný

Ekki óyfirstíganleg skuldastaða ríkissjóðs

Mikil aðlögunarhæfni íslenska hagkerfisins

Efnahagsstefnan sem nú er fylgt mótast af þeim miklu erfiðleikum sem við er að glíma í íslensku efnhagslífi og byggist á tveimur meginþáttum. Annars vegar að koma Íslandi út úr dýpstu efnahagskreppu seinni ára eins fljótt og auðið er á forsendum norræns velferðarsamfélags. Hins vegar að koma í veg fyrir að slíkt áfall geti dunið yfir á nýjan leik.

Hagkerfið dregst saman

Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir 8,4% samdrætti hagkerfisins í ár. Árið 2010 er gert ráð fyrir 1,9% samdrætti en að hagvöxtur taki við sér eftir það og verði 2,8% árið 2011, 4,8% árið 2012 og 2,6% árið 2013 samkvæmt forsendum fjárlaga.

Gert er ráð fyrir 10,6% atvinnuleysi árið 2010, 9% árið 2011, 6,1% árið 2012 og að atvinnuleysi verði enn 5,4% árið 2013. Undir lok spátímans verður atvinnuleysi því enn nokkuð yfir sögulegu lágmarki en verulega minna en nú. Eitt helsta viðfangsefni íslenskrar efnahagsstefnu er að koma í veg fyrir aukið langtímaatvinnuleysi.

Reiknað er með 11,4% samdrætti ráðstöfunartekna árið 2010 en kaupmáttur þeirra aukist á nýjan leik frá árinu 2012. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann mun þá hafa dregist saman um nærri fjórðung og vera í árslok 2011 álíka mikill og árið 2001.

Endurreisn bankakerfisins

Hrun þriggja stærstu fjármálastofnana landsins í október 2008 er eitt stærsta áfall sem fjármálakerfi nokkurs ríkis hefur orðið fyrir. Í mars 2009 féllu svo þrjú fjármálafyrirtæki til viðbótar. Ríkisstjórnin stefnir að því að bankakerfið verði enn að mestu leyti í eigu einkaaðila, hvort sem það verður við yfirtöku fyrrverandi kröfuhafa bankanna eða með einkavæðingu þeirra síðar. Ólíkt því sem verið hefur undanfarin ár hyggst ríkissjóður þó enn um sinn eiga virkan hlut í fjármálakerfinu í gegnum Landsbankann. Slík aðferð var farin í Svíþjóð og Noregi í kjölfar fjármálakreppa fyrir tveimur áratugum. Eignarhlutir ríkissjóðs munu næstu árin vera í höndum Bankasýslunnar, sem sett hefur verið á fót að vel heppnaðri norskri fyrirmynd. Þeir eignarhlutar sem ríkissjóður eignast í sparisjóðunum verða fluttir í Bankasýsluna og gert er ráð fyrir að ríkið dragi sig út úr rekstri þeirra þegar aukinn stöðugleiki kemst á í hagkerfinu.

Ríkisstjórnin telur einnig mikilvægt að styðja áfram við Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið með það að markmiði að stofnanirnar geti sinnt eftirlitshlutverkum sínum af meiri krafti en áður. Á næstu mánuðum verður svo tekin afstaða til þess hvort sameina eigi Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið á nýjan leik eða hvernig megi með öðrum hætti bæta samstarf þessara tveggja stofnana.

Traust stjórn ríkisfjármála

Í ljósi gríðarlegs samdráttar innlendrar eftirspurnar hefur ríkissjóður verið rekinn með verulegum halla á yfirstandandi ári í því skyni að draga úr áhrifum efnahagskreppunnar. Skuldastaða ríkissjóðs er há í sögulegu og alþjóðlegu tilliti en á engan hátt óyfirstíganleg. Samkvæmt áætlun í ríkisfjármálum til ársins 2013 er gert ráð fyrir að ríkissjóður skili afgangi á nýjan leik við lok þess tímabils. Fjárlagafrumvarpið sýnir og sannar vilja ríkisstjórnarinnar til þess að ná nauðsynlegum árangri í ríkisfjármálum, en þó á forsendum félagslegs réttlætis og jafnaðar.

Jákvæð teikn á lofti

Hagkerfið hefur sýnt gríðarlega aðlögunarhæfni á því ári sem liðið er frá falli bankanna. Þrátt fyrir að veiking krónunnar hafi valdið mörgum fyrirtækjum og heimilum búsifjum þá bætir lágt raungengi samkeppnishæfi þjóðarbúsins svo um munar. Af því leiðir að vöruskipti hafa verið jákvæð frá því í september 2008 og þjónustujöfnuður var jákvæður á öðrum ársfjórðungi 2009. Áhættuálag á íslenskar fjáreignir hefur lækkað hratt og skuldatryggingarálag á ríkissjóð er nú aðeins um þriðjungur þess sem það var í ársbyrjun. Allir þessir þættir, ásamt hraðlækkandi verðbólgu á síðustu mánuðum ársins, munu mynda undirstöður fyrir aukinn stöðugleika og hagvöxt til framtíðar.

Þjóðhagsáætlun fyrir árið 2010

 

Reykjavík 5. október 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta